Virðing – hvað er það?

Í skólanum í síðustu viku var ég að horfa á upptöku af málþingi sem haldið var 9. nóvember 2007 af tilefni útgáfu bókarinnar Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar eftir Sigrúnu Aðalbjarnardóttur. Þar hélt Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í Kópavogi, mjög áhugavert erindi sem virkilega fékk mig til að hugsa.

Erindið nefndist “Mér finnst þú svona eins og forsetinn”, en þetta sagði 6 ára nemandi við Hafstein þegar hann hitti skólastjórann sinn í fyrsta skipti. Hafsteinn hafði velt því fyrir sér í nokkurn tíma hvað nemandinn átti við, en skildi loks að þetta var virðingin. Nemandinn bar álíka mikla virðingu fyrir skólastjóranum og sjálfum forsetanum.

Virðing er eitthvað sem mér finnst skorta sárlega í íslensk samfélag. Ég er ekki að segja að hún sé ekki til staðar, en það er einfaldlega ekki nóg af henni. Hafsteinn bendir á nokkrar rannsóknir þar sem Ísland er sagt vera neðst á lista þegar rannsökuð er sú virðing sem samfélagið ber fyrir menntakerfi sínu og kennurum. Og þegar ég hugsa út í þá mörgu pistla sem birst hafa á vefnum undanfarið og umræðunni sem er í gangi get ég alveg verið sammála því, þó það sé þónokkur tími síðan þessar rannsóknir fóru fram. Ég er því hrædd um að ástandið gæti jafnvel farið versnandi. Hafsteinn nefnir að virðing fyrir kennurum og menntakerfinu stuðli að velgengni og hafi þar með áhrif á PISA kannanirnar, sem sífellt er verið að hafa áhyggjur af.

Vanvirðing gagnvart kennurum birtist einna helst í fjölmörgum pistlum og ummælum þar sem almenningur telur sig vita ýmislegt betur en kennarar og eru sífellt að segja þeim til. Ég hef alveg reynslu af þessu sjálf, enda hef ég mjög sterkar skoðanir á menntakerfinu, eftir að hafa verið þar í um 15 ár. Svo ég hef alveg fallið í þessa gryfju sjálf. Hafsteinn tekur skemmtilegt dæmi þar sem hann bendir á að aldrei myndi almenningur fara að skipta sér af því hvernig pípari, flugstjóri eða skurðlæknir vinnur vinnuna sína, en fólki finnst sjálfstætt mál að skipta sér að starfi kennara, ekki eins og þeir hafi lokið mastersgráðu í kennslufræðum! Þessi afskiptasemi er skiljanleg, enda vilja foreldrar það besta fyrir börnin sín, en hún getur þó farið út í öfgar. Því langar mig að vísa í Guðríði Arnardóttur framhaldsskólakennara, sem segir í pistli sínum:

Framhaldsskólakennarar vita einfaldlega betur en sjálfskipaðir sérfræðingar í málefnum framhaldsskólans, því það að hafa setið á skólabekk gerir menn ekkert að sérfræðingum í skólamálum, frekar en sá sem hefur farið í uppskurð verður sérfræðingur í skurðlækningum.

Og gera má ráð fyrir því að það sama gildi um kennara í leik-, grunn- og háskóla. Þó er vissulega ýmislegt sem nemendur geta kennt kennurum sínum, en þó ekki mörgum árum eftir að skólagöngu þeirra líkur.

Hafsteinn ber starf íslenskra kennara saman við þá finnsku, en Finnland þykir hafa framúrskarandi menntakerfi. Þar er menntun talin vera auðlind og mikil virðing ríkir. Þar er treyst á kennara, en engin samræmd próf eru merki um það. Aftur á móti er áhersla lögð á einstaklingsmiðun og skóla án aðgreiningar á Íslandi, sem gerir starf íslenskra kennara þar af leiðandi erfiðara og flóknari. Mér finnst þetta samt sem áður jákvætt, skólar eiga að vera án aðgreiningar, þeir eiga að bjóða alla velkomna.

Svo að ég bið, eins og Hafsteinn í ræðu sinni, um að Íslendingar hætti að tala niður til skóla og verði heldur stoltir af þeim. Tölum vel um skólana og kennarana og sýnum þeim traust og virðingu. Öðruvísi fær skólakerfið ekki að blómstra. Það er vitað að það sem fólki finnst og segir um aðra getur haft mjög mikil áhrif og brotið niður sjálfsmynd þeirra. Það sama ætti því að geta gerst með kennara, og ímynd skóla.

Og að lokum vil ég benda ykkur á þessa mynd til að sýna ykkur hversu frábært íslenska menntakerfið er í raun, það þarf bara að sýna því aðeins meira traust, virðingu og ef til vill leggja örlítið meira fjármagn í það, en það er algjörlega efni í annan pistil. Mér finnst þetta mjög áhugaverð og nauðsynleg nálgun á skólakerfið, enda skiptir hamingja barnanna jafnvel meira máli en hversu góðar einkunnir þau fá.

Topp 10