Nú kom loksins að því að ég fór í mína eigin tilraunastarfsemi í sykur- og hveitilausum bakstri, þó ég hafi verið inn og út úr því mataræði síðasta árið. Ég er ekki að fylgja LKL, en margar uppskriftir án hveitis- og sykurs falla þó í þann flokk. Ég hef verið að prófa mig áfram og athuga hvort þetta mataræði hafi betri áhrif á vefjagigtina.
Í síðustu viku gerði ég sjónvarpsköku úr bókinni hennar Kristu sem tókst ágætlega – en samt þörf á annarri tilraun. Mér fannst hún eiginlega fullsæt, sem mér finnst svolítið fyndið 🙂
Núna lagðist ég í það að gera bántíköku, en ég hef áður gert uppskriftina úr Kökubók Hagkaupa, sem inniheldur nánast hálft kíló af sykri! Ég ákvað samt að gera bara einn botn, þar sem þetta var algjört tilraunaverkefni 🙂 Ég ákvað þess vegna að taka svona hundrað myndir á símann minn og skella hérna inn með uppskriftinni!
Hér er uppskriftin. Allt saman fæst þetta í krónunni og ég set inn tengil á mynd af þessum fínu sætuefnum 🙂
Botn:
4 stk eggjahvítur
50 gr Erythritol/Sukrin (í staðinn fyrir hvítan sykur)
10 dropar stevia m/ vanillu
180 gr kókosmjöl
Krem:
2 stk eggjarauður
25 gr Sukrin melis (í staðinn fyrir flórsykur)
70 gr 70% súkkulaði (einfaldlega vegna þess að ég átti ekki meira)
30 gr smjör
Aðferð:
Byrjið á því að hita ofninn á 180°C – blástur.
Stífþeytið eggjahvíturnar.
Bætið síðan Sukrin og Steviu út í og þeytið ennþá meira!
Þetta verður svona stífþeytt ef þið gleymið hrærivélinni í gangi á meðan þið kíkið aðeins á fésið 😉 Smakkið til, ef þið viljið hafa þetta sætara þá er um að gera að bæta meira Sukrin út í, en mér fannst þetta fínt – alls ekki jafn sætt og venjulegur marengs samt.
Því næst skal bæta kókosmjölinu úti. Ég veit að þetta virðist ótrúlega mikið, en þetta passar allt saman þegar búið er að blanda þessu saman með sleikju. Svona lúkkaði þetta þegar kókosinn var kominn saman við, hefði kannski átt að fara mér aðeins hægar svo þeytingin héldi sér betur 😉
Skellið í 26 cm álmót/smelluform. Annars var ekkert mál að taka kökuna úr, þannig að ég hefði kannski alveg getað notað sílíkonformin mín.
Því næst er kakan bökuð í 18 mínútur, alls ekki meira. Hún varð vel dökk hjá mér, hefði jafnvel getað bakað hana styttra.
Leyfið botninum að kólna á meðan þið gerið kremið. Þegar formið hefur kólnað aðeins er um að gera að skella botninum á disk, svo hann verði orðinn kaldur þegar kremið er sett á.
Ég verð að viðurkenna að ég hafði mjög takmarkaða trú á að kremið myndi heppnast, þó ég væri nokkuð vongóð með botninn, en það hafðist samt sem áður 🙂
Byrjið á að setja eggjarauðurnar og Sukrin melis í hrærivélina og þeytið eins og enginn sé morgundagurinn. Jafnvel hægt að byrja á þessu á meðan kakan er ennþá í ofninum. Þeytið þar til eggjablandan er orðin stíf og falleg á litinn 🙂
Á meðan skal bræða súkkulaðið og smjörið saman í potti á lágum hita. Ég hefði sett meira súkkulaði ef ég hefði átt það til, samkvæmt mínum útreikningum hefði átt að vera 100 grömm, en þetta kom ágætlega út.
Síðan er súkkulaðiblöndunni og eggjablöndunni blandað varlega saman. Þetta Sukrin melis er sætara en allt, svo ef þið ætlið að nota venjulegt suðusúkkulaði má minnka magnið af því. Ég hélt að ég myndi kannski þurfa að gera kremið aðeins sætara þar sem ég notaði svona dökkt súkkulaði, en hafði mjög rangt fyrir mér.
Dreifið kreminu yfir botninn – og í restina ætti hún að líta svona út.
Ef vilji er fyrir hendi er síðan lítið mál að gera kökuna á tveimur hæðum, og þá tvöfalda uppskriftina af botninum og tvö- eða jafnvel þrefalda uppskriftina af kreminu 🙂
Kakan er mjög góð ein og sér – ég er búin að prófa 😉 – en ef vilji er fyrir hendi er líklegast fínt að borða hana með rjóma. Annars á yfirsmakkarinn eftir að smakka, þar sem hann er í vinnunni.
Svo ég er bara nokkuð ánægð með þessa fyrstu tilraun, og vona að þær verði fleiri. Endilega prófið að gera þessa og látið mig vita hvernig fer og ef eitthvað er óskýrt.
Síðan finnst mér alveg greinilegt, svona þegar sykrinum og hveitinu er sleppt, að þegar ég er búin með eina sneið þá er ég bara sátt, langar ekki að borða alla kökuna eins og vanalega. Og ég er nokkuð viss um að það hefur eitthvað að gera með blóðsykurinn, en ekki að þessi kaka sé eitthvað verri! 🙂
Svo nú er bara spurninin, hvað á ég að gera við tvær eggjarauður?