Útijóga :)

Eftir að hafa klárað 30 daga áskorunina gerðu ég þau mistök að halda að ég vildi fá smá hvíld eftir að hafa gert jóga á hverjum degi í mánuð. Ég er að segja ykkur það, það voru stór mistök. Mér líður svo miklu betur ef ég geri jóga á hverjum degi, og þó svo að það komi tímar sem ég nenni ekki að gera jóga, þá er svo miklu miklu erfiðara að hætta að gera jóga og að byrja síðan aftur, en einfaldlega að halda áfram þegar löngunin til að hætta kemur. Þá er einfaldlega hægt að gera auðveldara og styttra jóga þegar þannig liggur á manni.

Í páskafríinu var ég enn í basli við að byrja aftur, gerði jóga stundum og stundum, en það var ekki orðið að rútínu. Laugardaginn fyrir páska fæ ég síðan sent nýtt myndband frá Erin Motz (það er skvísan sem er með 30 daga áskorunina), þetta hér:

Þetta myndband finnst mér algjör snilld – og ég vona að ég fái fleiri myndbönd frá henni þar sem engin þörf er á að nota jógamottu eða önnur áhöld, semsagt jóga sem hægt er að gera hvar og hvenær sem er 😉 Inná youtube eru til fleiri myndbönd undir leitarorðunum “Yoga without a mat” en ég hef ekki prófað nein þeirra.

Ég ákvað að prófa þetta myndband úti í 4°C hita í Öxarfirði, svolítið öðruvísi en þessi sól sem hún sýnir í myndbandinu í Flórída. Ég klæddi mig því í útiföt og hélt á símanum og vonaði að netið myndi virka svo ég gæti spilað myndbandið úti. Það gekk upp, en ég er  í raun ekki búin að horfa á þetta myndband, heldur bara hlusta á það og fylgja fyrirmælunum, svo það var gott að ég var orðin vön því að hlusta á hana leiðbeina mér um jóga 🙂

Ég set hér inn nokkrar misgóðar myndir – eina af mér að gera jóga og tvær aðrar af því hvernig staðan var þennan daginn 🙂

WP_000500

Með Tungufjallið í bakgrunni 🙂 Útijógað var alveg dásamlegt, að gera jóga með lungun full af fersku (og í þessu tilfelli köldu) lofti er yndislegt. Mér finnst ég fá mun meira út úr æfingunni en ef ég geri hana innandyra, en nákvæmlega hvað það er sem veldur þessu get ég ekki útskýrt.

WP_000502 WP_000503

Svo að niðurstaða mín er sú að það að gera jóga úti er alveg dásamlegt og gerir æfinguna mun betri – þó aðstæður eða hitastig sé ekki með besta móti. Í byrjun maí gerði ég aftur jóga úti, á pallinum heima hjá mér á Sauðárkróki í sólskininu, sem var ennþá betra en þetta. Þá var nógu hlýtt til að vera í íþróttafötunum, ég gat tekið jógamottuna með mér út og fengið orku frá sólinni í leiðinni. Ég held að ég hafi verið tæpan klukkutíma úti í jóga, sem undirstrikar hversu þægilegt það var.

Ég mæli því með útijóga fyrir alla – og myndband eins og þetta sem ég setti inn er góður grunnur þegar jóga er gert án mottu við ýmsar aðstæður. Það er klárt mál að á mínu framtíðarheimili verður góð aðstaða til að gera jóga utandyra, þetta er einfaldlega of gott. Þetta hefur einnig orðið til þess að ég þarf helst að hafa allt opið út þegar ég geri jóga inni, mér finnst skorta allt súrefni innandyra 😉