Og hvað lærði ég svo af þessi mataræðisáskorun?

Já, það hefur verið meira en nóg að gera hjá mér undanfarna viku og því hef ég ekkert skrifað, en hins vegar haft nægan tíma í að hugsa um hvað ég ætlaði að skrifa 🙂

Í síðustu bætti ég síðan inn hveiti og sykri. Ég veit alla vega núna að ég er ekki með neitt óþol fyrir glúteni, en hins vegar er hveitið náttúrulega mun þyngra í maga og mér leið eins og ég hefði borðað yfir mig þó ég hefði ekki borðað mikið brauð. Mér grunar líka að hveitið hafi aðeins slæm áhrif á liðina mína, en ég er ekki alveg viss um það. Með sykurinn vissi ég alveg að hann hefði slæm áhrif á mig og svona yfirleitt ef ég borða sykur fæ ég höfuðverk. Því er alveg klárt mál að mjólkurvörur, sykur og hveiti fer allt á takmörkunarlista og svona þegar ég er komin með mitt eigið heimili verður þetta ekki til 😉

Svo hvað lærði ég á þessu mataræði?

Þetta mataræði er ótrúlega einfalt, það er varla hægt að kalla þetta áskorun!

Þetta mataræði, sem ég veit ekki hvort ég eigi að kalla paleo eða hvað, er svo miklu miklu miklu miklu auðveldara en ég bjóst við og sannfærir mig algjörlega um það að ég get haldið mig við þetta mataræði til frambúðar! Ég get því varla kallað þetta áskorun eftir allt saman, þetta var svo einfalt 😀 Og eftir að ég bæti eggjunum við þá er ennþá meira sem ég get búið til sem kemur í staðinn fyrir ýmist góðgæti fullt af sykri.

Þessar rúmu þrjár vikur leið mér betur en mér hefur liðið lengi

Þetta mataræði er svo klárlega eitthvað fyrir mig, ég var orkumeiri, miklu hressari og leið almennt séð miklu betur. Ég var líka bara svo stolt af því að geta þetta, hvað þetta var einfalt og þægilegt. Í þessu mataræði borðaði ég líka bara næringarríkan mat, en ekki tómar hitaeiningar eins og sykur. Ég hafði þess vegna alltaf næga orku, auk þess sem blóðsykurinn hélt sér fullkomlega stöðugum, ég var yfirleitt södd og sæl, en samt aldrei svona pakksödd eins og ég hafði oft verið áður.

Ég hætti að narta á milli mála í allskonar sætmeti

Já, augljóslega gat ég ekki verið að maula súkkulaðikex eða eitthvað álíka milli mála, en ég var heldur ekki að maula neitt annað. Matartímarnir mínir urðu mun reglulegri, ég fékk mér þennan dásamlega chia graut alla morgna sem var góð undirstaða undir daginn og hafði jafna orku út daginn.

Ég er ekki manneskja sem getur bara fengið sér einn súkkulaðibita

Fyrir viku síðan fór ég í brúðkaup og síðan þá hef ég í raun ekki haft neinar reglur um mataræðið mitt. Ég hef svolítið bara borðað það sem mig langar í og eitt af því hefur verið nammi eða kökur. Og ég er einfaldlega bara alveg ófær um það að fá mér bara eina kökusneið eða nokkra súkkulaðibita. Klára af fatinu eða pokanum og sleikja það svo að innan, það dugar ekkert minna! Það má ekkert af þessu sykurjukki fara til spillis og það þarf að klárast á núll einni!

Sykur-, glúten- og mjólkurlaust mataræði hefur góð áhrif á samband mitt við mat

Já, þetta er ég búin að tala svolítið um. Hér áður fyrr var ég bara svolítið að troða í mig, ekkert að hugsa um hvað ég var að borða og oft svo mikið að drífa mig að ég naut þess ekkert að borða. Þessar rúmu þrjár vikur voru allt öðruvísi. Ég var iðulega síðust frá matarborðinu og ef ég var ein settist ég inn í stofu og naut þess að borða hvern einasta bita. Ég vissulega náði þessu ekki alltaf, en þegar ég gerði það leið mér mun betur. Þá var ég líka virkilega södd, en ekki bara búin að koma einhverju ofan í maga á ofurhraða. Ég þarf samt sem áður að æfa mig mun meira og aðallega að muna eftir því að borða með hugann við verkið, því annars líður mér stundum að máltíð lokinni eins og ég hafi einfaldlega ekkert borðað, og vil því fara að borða meira.

Mmmmm – matur er svo góður!!

Á þessum tíma lærði ég virkilega að elska mat: Paprika, gúrka, avókadó, sveppir, brokkolí, nektarínur… og svo mætti lengi telja. Allt saman svo næringarríkur og bragðgóður matur, sem týnist svolítið inná milli eða gleymist einfaldlega þegar það er líka í boði pasta, kökur og fleira. Eftir þennan tíma þykir mér nauðsynlegt að hafa stóran hluta af grænmeti í hverri máltíð – þetta er allt saman svo gott 😀

Einfaldleiki er málið!

Ég sver að það er svo miklu miklu auðveldara að elda þegar úrvalið er orðið svona takmarkað. Ég var oft lengi að koma mér í það að fá mér að borða, langaði ekki í neitt og þar fram eftir götunum. Ég lenti auðvitað í þannig augnablikum, sá ávani hverfur ekki á einni nóttu, en þegar úrvalið var orðið svona lítið lærði ég virkilega að njóta þess sem í boði var og var töluvert sáttari með útkomuna 😀

Já, ég gæti líklegast sagt miklu miklu meira um þetta mataræði, en þið verðið þá bara að kíkja í heimsókn og spjalla eða skella inn spurningu hér fyrir neðan ef þið hafið einhverjar 😀

Svo hvað er þá næst?

Núna hef ég verið í viku án þess að vera með neinar reglur þannig og mér líður bara alls ekki jafn vel. Ég er orðin orkuminni og er sífellt að troða í mig einhverju súkkulaði hér og þar, í stað þess að borða alvöru máltíðir eins og ég gerði áður. Og það sem kom mér eiginlega helst á óvart er hversu fljótt hugsunin kom aftur um það að ég væri að missa af einhverju ef ég hætti aftur að borða þetta allt saman, eins og þetta sé eitthvað betra fyrir mig.

Núna og áfram ætla ég að hafa sykur, glúten og mjólkurvörur á takmörkunarlista. En umfram allt að borða það sem er mikil næring í, því kanilsnúður eða grjónagrautur er svo sannarlega ekki að skila mér þeirri orku sem ég þarf á að halda. En hins vegar eru samlokur á Lemon eða Serrano quasadilla svo sannarlega að skila mér orkunni sem ég þarf (Já, ég sakna þess svolítið hérna fyrir norðan…) og því er ekkert að því að ég borði það þó það sé vissulega glúten í því.

Fram til áramóta verður mataræðið því nokkuð í lausu lofti, ég mun reyna að stjórna því þannig að mér líði sem best og halda áfram að tilraunast með það. Ég er alveg hætt að baka sykurkökur, enda finnst mér hinar bara miklu betri, og mig langar ekki einu sinni í pasta! Þetta mataræði hefur svo sannarlega breytt sín minni og ég veit það fyrir víst að þegar ég kem aftur til Íslands eftir áramót mun ég halda þessu áfram, þar sem ég get svo auðveldlega stjórnað þessu öllu sjálf.

Hvernig haustið verður mun svo bara koma í ljós 🙂 Ég ætla bara að vera mjög slök með það og vera ekki að reyna að halda mig við eitthvað mataræði þegar það er svo margt nýtt til að prófa 🙂 Ég held líka að það að virkilega njóta þess sem maður er að borða og gefa sér tíma gefi líkamanum þau skilaboð að þarna sé góð næring, sé jafnvel mikilvægast af þessu öllu. Það er því markmiðið fyrir haustið, að einbeita mér að þessu.

Ég held nefnilega að eftir þessar þrjár vikur verði mataræðið mitt aldrei eins, og ég er mjög ánægð með það! Ég var einmitt að borða þetta góðgæti á meðan ég skrifaði þetta:

WP_20150718_15_24_41_Pro

Núna þegar ég er byrjuð að vinna alla daga annars staðar en heima hjá mér breytist mataræðið náttúrulega aðeins. Suma morgna (aðallega þar sem ég hef ekki nennt í búðina að kaupa avókadó) hef ég skellt chiafræjunum mínum (sem legið hafa í bleyti) í glas með smá ávaxtasafa og skellt í mig. Það er vissulega ekki jafn mettandi og grauturinn, en ég þá alla vega að fá chia skammtinn minn 🙂

WP_20150718_09_41_49_Pro

Og já ég veit, þetta lítur nú ekkert rosalega vel út, en samt…

Og já, ég hef líka nota Froosh smoothie og skorið nektarínubita útí, það var mjög fínt og var nær því að uppfylla það sama og grauturinn 😉

Ég hef síðan pantað mér mat í vinnunni og fengið þá ávexti og grænmeti í staðinn fyrir súpu, brauð og kartöflur. Þennan dásemdarfisk fékk ég í síðustu viku:

WP_20150710_12_06_09_Pro

 

Svo þá held ég sé búin að segja allt sem mig langar að sejga að svo stöddu 😀 Mig langar mikið að heyra frá ykkur, hvernig ykkur fannst að fylgjast með þessu og hvaða áhrif það hafði á ykkar eigið mataræði 😀

Svo núna fer ég kannski að skrifa um eitthvað annað en mat, svona til tilbreytingar 😀

Þetta virkar! Búin að bæta við eggjum og osti :)

Já, ég get hér með staðfest að svona “takmörkunar”mataræði virkar! Það er líka svo miklu miklu auðveldara en ég gat nokkurn tíman ímyndað mér og tíminn flaug á ógnarhraða 😉

Í gærkvöldi elduðum við steiktan fisk, sæta kartöflustöppu og lauk 🙂 Í það notuðum við egg og ég var því að bæta þeim við. Ég einfaldlega nennti ekki að standa upp til að sækja símann og taka mynd í gær, svo þið verðið bara að láta ímyndunaraflið ráða för 😉

Í hádeginu í dag fékk ég mér síðan salat og skar út á það tvö soðin egg. Þess má geta að fyrir daginn í dag hef ég aldrei verið hrifin af soðnum eggjum, svo eggjaþörfin hefur verið farin að gera vart við sig!

Eggin höfðu engin slæm áhrif á mig – enda bjóst ég ekki við því. Ég er hrifin af eggjum og þau eru eiginlega nauðsynleg í svo margs konar bakstur þegar búið er að taka út hveiti og sykur að ég vildi helst halda þeim inni. Ég er því mjög ánægð með árangurinn, eggin eru komin inn og mér líst vel á þau 😀 Þau eru líka góður og fljótlegur próteingjafi – góð viðbót við mataræðið eins og það er 🙂

Vegna þess hversu sannfærð ég var um ágæti eggjanna ákvað ég að flýta aðeins fyrir mér og bæta einnig við osti í dag. Ég gerði avókadónammigumms (þ.e. avókadó og fetaostur stappað saman, bráðnar í munni!) með kjúklingnum í kvöldmatinn 🙂 Hér kemur svo loksins inn mynd af kvöldmatnum 🙂

WP_20150707_19_09_18_Pro

Þetta var heilsteiktur kjúklingur, grænmetisgúrmé (laukur, sveppir, brokkolí, blómkál og hakkaðar möndlur steikt upp úr smjöri og kryddað helling), avókadógums og niðurskorin paprika, gúrka og gulrót 😉

WP_20150707_19_12_04_Pro

Síðan voru líka kartöflur með, en í þetta sinn gerði ég ekki sér sætar fyrir mig. Ég borðaði samt bara eina og fannst það yfirdrifið nóg. Ég hef haldið þeim á takmörkunarlista, fengið mér örlítið kannski þrisvar undanfarnar vikur. Enda snerist það ekki um að ég þoldi þær illa, heldur bara að það væri mun næringarríkara að fá sér annars konar meðlæti. En ég hins vegar finn að þessar kartöflur (ofnsteiktar, dásamlegar!) eru nátengdar dópamín stöðvunum í heilanum mínum! Mikið sem mér finnst þær góðar, ég nýt þess í botn að borða þær 😉 Þær falla svo klárlega í flokkinn “comfort foods” 😉

En já, ég bætti semsagt osti við kvöldmatinn. Avókadógumsið var dásamlega gott og ég notaði það í raun sem sósu með kjúllanum. En það sem gerðist næst staðfestir fyrir mér að þetta mataræði virkar! Ég fann um leið og ég var búin að borða að osturinn var ekki að fara vel í mig, ég fékk höfuðverk, magaverk og varð hálf óglatt. Ég hef alveg fundið fyrir vægum einkennum af mjólkurvörum, þá aðallega súrmjólk sem ég hætti að borða fyrir mörgum árum og leið þá strax betur. En svona hefur mér ekki áður liðið af osti – og ég trúi því að öll meðvitund mín um það hvernig líkaminn minn þolir matinn hefur aukist gríðarlega. Það er því greinilegt að ostur og aðrar mjólkurvörur verða settar á takmörkunarlista til frambúðar! En ég ætla samt ekki að vera með einhver óraunhæf plön, ég veit vel að ég mun fá mér dásamlegar rjómalagaðar sveppasósur og rjómaís af og til, en þetta gerir mig samt mun meðvitaðari um ástandið og ég mun reyna betur að sleppa mjólkurvörum en ég hef gert hingað til.

En þrátt fyrir vanlíðanina sem þessi ostur olli (þó hann hafi verið svooo góður meðan ég borðaði hann!) þá er ég svo ánægð með árangurinn, svo ánægð með líkamann minn að senda svona sterk skilaboð og almennt svo hrikalega ánægð með þessa áskorun og hversu vel hún hefur gengið 😀

Næst á dagskrá er að bæta inn hveiti á morgun eða fimmtudaginn og sjá hvernig það verður. Ég er síðan að fara í veislu á laugardaginn og mun þar borða það sem verður í boði þar, það verður ágætis tilraun 😉

Takk fyrir lesturinn! Yfir og út 😉

Sætkartöflurisotto, súkkulaðismjör og ís í morgunmat!

Namm namm!

Allt gengur eins í sögu hérna megin, í gær hafði ég lokið tveimur vikum í mataræðisáskoruninni 🙂 Þetta gengur mjög vel, mun betur en ég bjóst við 🙂

Það sem helst freistar mín er rjómasósan sem er núna í dalli inní ísskáp, afgangar af slíkri sósu eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég veit vel að ég mun aldrei hætta að borða svona sósu. En þessi áskorun mun vonandi sýna mér hvaða áhrif osturinn hefur á mig og hjálpað mér að ákveða í hversu miklu mæli ég vil hafa hann í mataræðinu mínu.

Núna á ég í raun bara viku eftir, á mánudaginn næsta ætla ég að bæta inn eggjum og gefa því tvo sólarhringa. Því næst bæti ég við mjólkurvörunum. Hvað varðar sykurinn og hveitið veit ég vel að mér líður mun betur án þess, en ég þó eftir að athuga hvort það er glúten almennt eða einfaldlega hvítt hveiti sem hefur slæm áhrif.

Þegar ég renni yfir myndirnar mínar sé ég að ég hef alveg óskaplega mikið að segja ykkur frá í dag 😉

Í fyrsta lagi skelli ég hér inn tveimur myndum af fínasta hádegismat, en appelsínugulur virðist vera í uppáhaldi 😉

WP_20150623_13_21_46_Pro

Soðinn fiskur, sætar kartöflur, gulrætur og brokkolí 🙂 Mjög svo bragðgott, einfalt og fljótlegt 😉 Magnið af smjöri sem síðan bættist á diskinn fylgir ekki sögunni…

Í gær gerði ég svo kalt “salat” – rest af lambakjöti, sætar kartöflur, paprika, apríkósur og vínber.

WP_20150628_17_05_26_Pro

Og já, ég treð möndlu-, kókos- eða heslihnetuflögum í allan mat 😉

Í hádeginu í dag eldaði ég líka gómsætan rétt þó svo að “ekkert” væri til – það er alveg merkilegt hvað er hægt að elda mikið úr tómum ísskáp 😉

WP_20150630_13_18_56_ProÞetta mun vera sætkartöflurisotto 😉 Úber fancý fyrir þriðjudagshádegisverð og ótrúlega bragðgott 🙂 Það er nú varla uppskrift af þessu, en hér kemur það í stuttu máli 🙂

Sætkartöflurisotto
Fyrst sauð ég brún hrísgrjón og skar sætu kartöfluna í teninga og steikti á pönnu. Þegar hrísgrjónin voru suður skellti ég þeim út á pönnuna með sætu kartöflunum og setti svo til hliðar. Þá steikti ég á pönnu lauk, blómkál, appelsínugula papriku (því það er þemað!), döðlur og möndluflögur – um það bil allt sem ég fann í ísskápnum 😉 Þetta kryddaði ég í drasl, til dæmis með karrý og öðru gómsætu kryddi 🙂 Síðan hrærði ég hrísgrjónunum og sætu kartöflunum saman við og setti aðeins meira karrý og svolítið smjör með 🙂 Þetta með salati bragðaðist svona ljómandi vel 🙂

Af ólífupestóinu er svo að frétta þetta helst að það vakti svo mikla lukku að það kláraðist! Ég var svona að vona að hinum á heimilinu þætti það ekkert svo gott og vildu frekar upprunalegu útgáfuna, en þar skjátlaðist mér. Heiða frænka fékk meira að segja í krukku með sér heim 😉

WP_20150629_21_48_33_Pro

Já, þessi krukka var full kvöldið áður…

En þetta blogg einkennist af því að fara út og suður, en helsta vandamálið við þessa áskorun er vissulega skortur á súkkulaði 🙂 Ég bjargaði málunum í gær þegar ég bjó til súkkulaðismjör 🙂

WP_20150629_21_48_37_Pro

Það heppnaðist mjög vel, sérstaklega þar sem ég bjó uppskriftina til á staðnum 😉 Eins og allar mínar uppskriftir er hún ekkert sérlega nákvæm og þurfa bragðlaukarnir eiginlega að fá að ráða för 🙂

Til að geta sagt ykkur uppskriftina af þessu verð ég samt fyrst að sína ykkur hnetusmjörið sem ég bjó til hérna fyrir nokkru síðan, þar sem það var notað í uppskriftina. Inní paleo mataræðinu sem ég hef mér til fyrirmyndar eru nefnilega engar jarðhnetur, þar sem þær eru ekki hnetur heldur baunir. Ástæðan fyrir því að þær eru teknar út úr mataræðinu nenni ég ekki að orðlengja hér, en í það minnsta hljóma þær ekki sérlega góðar fyrir mann. Þar sem annars konar hnetusmjör kostar sitt ákvað ég að búa til mitt eigið sem tókst bara ljómandi vel 🙂 Ég er hins vegar ekki alveg nógu dugleg að borða eintómt hnetusmjör og því er þessi súkkulaðiútgáfa frábær lausn á öllu hnetusmjörinu sem ég á 😀

Að búa til sitt eigið hnetusmjör er alveg fáránlega einfalt – það kostar bara smá þolinmæði 🙂

WP_20150305_20_46_41_Pro

Hnetunum er skellt í matvinnsluvél – í ég setti möndlur, kasjúhnetur og pekanhnetur. Þetta er síðan mixað í ca. 10 mínútur eða þar til það lítur út eins og hnetusmjör 😉 Aðalatriðið í þessari uppskrift er einfaldlega að skella græjunni í gang og fara eitthvað annað á meðan, en ekki alltaf að vera að kíkja, pota og smakka – þá verður þetta aldrei til! 🙂

WP_20150308_13_40_29_Pro

Svona lítur góðgætið út eftir 10 mínútur 😀 Þessu skellti ég í krukku og hef notað í ýmislegt, til dæmis einfaldlega smurt ofan á eplabita 🙂 Núna held ég að ég muni samt bara smyrja eplið með súkkulaðismjöri 😉

Súkkulaðismjör

12 döðlur (medjool, þ.e. ferskar)
Dass af vatni (volgu?)
3 msk kakó
3 msk ólífuolía (kaldpressuð! – eða kókosolía)
um það bil sirka 8 skeiðar hnetusmjör (með matskeið)

Ég skellti í töfrasprotann 12 döðlum (einfaldlega þar sem ég ákvað að klára úr pakkanum), munið bara að taka steininn úr 🙂 Út á það setti ég vatn, ég set að einhverjum ástæðum volgt vatn, en veit ekki hvort það skiptir máli. Þetta er síðan mixað þar til þetta verður að einskonar þunnu kremi, bætir við vatni ef þörf er á. Út á þetta setti ég matskeið af ólífuolíu, en hefði líklega frekar notað kókosolíu hefði hún verið til. Síðan bætti ég við kakói – endilega smakkið eftir þetta til að vita hversu mikið kakóbragð þið viljið á móti sætunni 🙂 (Stoppið hér ef þið viljið íssósu!). Eftir það skellti ég hnetusmjörinu út í og ólífuolíunni til að vega á móti svo auðveldara væri að vinna þetta saman. Ég byrjaði á fjórum skeiðum (ég veit, hræðileg mælieining!) ef hnetusmjöri og þá var það mjög sætt, líklega eitthvað sem hægt hefði verið að nota sem köku á krem, en þar sem ég ætlaði að borða þetta dagsdaglega setti ég meira hnetusmjör útí. Ég er mjög svo ánægð með útkomuna og núna er ég komin með hollt og gott súkkulaði inní lífið 😉

Ég skellti þessu síðan á maísköku og nokkrum pekanhnetum (eða kasjú) ofaná 🙂

WP_20150629_21_49_42_Pro

Nammi namm 😉

Í morgun datt mér síðan í hug að setja smá (samt ekki smá) súkkulaðismjör útí chia grautinn (með eplum og ferskjum) – það bragðaðist náttúrulega dásamlega – en ég setti aðeins of mikið og var pakksödd löngu áður en grauturinn kláraðist, sem hefur aldrei gerst áður 😉

WP_20150630_09_00_20_Pro

 

Í þessu samhengi vil ég bara benda ykkur á hvað er auðvelt og fljótlegt að skella í gómsætt snarl sem nærir sætupúkann 🙂

Svo má auðvitað ekki enda þetta nema með nýjustu fréttunum af chia-grautnum 😉

Avókadó-nammi-gottið á auðvitað ást mína alla, svo að þegar það er til avókadó og appelsína er ekkert annað í boði í morgunmat. Sjáið bara hvað þetta er fallegt!

WP_20150625_09_42_49_Pro

 

En hins vegar trúi ég því ekki að ég hafi gleymt að setja hér inn morgunmatinn minn síðan á föstudaginn! Því ís í morgunmat er svo sannarlega frásögu færandi 🙂 Þannig var mál með vexti að allir (þá meina ég allir!) ávextirnir á heimilinu voru búnir, fyrir utan þá frosnu. Það var þó ekki hægt að byrja daginn öðruvísi en með chia graut og því brá ég á það ráð að nota bara frosið mangó og bláber 🙂 Þetta varð auðvitað að ísköldum en gómsætum morgunmatsís 😀

WP_20150626_10_03_16_Pro

Og algjörlega nauðsynlegt að byrja svona dag á ís – enda var alveg steikjandi hiti úti og sólin lék við okkur allan daginn 😀

Svo já, ég er að borða súkkulaði og ís í morgunmat þessa dagana, ég get varla haldið áfram að kalla þetta áskorun! 😉

En takk fyrir lesturinn ef einhver nennti að lesa þessa langloku 😉

Á morgun er síðan planið að baka köku og auðvitað skella inn uppskriftinni af henni 🙂

Ég er farin að fá mér maísköku með súkkulaðismjöri, er farin að slefa hérna á lyklaborðið við tilhugsunina…

 

 

Fimmtudagsfjör og ólífupestó! :D

Jájá, nú hef ég ekkert skrifað síðan á sunnudaginn, það hefur verið nóg að gera og ég verið fjarverandi tölvu, alla vega í blogghugleiðingum. Mataræðið hefur gengið mjög vel núna undanfarið – en ég held ég sé ekki sammála því að fyrstu dagarnir hafa verið erfiðastir. Það er frekar núna, þegar mér er farið að líða betur, sem ég vil fara að fá mér eitthvað sem er ekki á lista. Núna er ég að klára ellefta daginn – svo ég er rétt hálfnuð 🙂

Það helsta sem er að frétta er að ég hætti við að hætta við – og ákvað að halda kjötinu inni, annað er einfaldlega of mikið. En ég er samt alveg viss um það að einhvern daginn mun ég prófa að vera grænmetisæta – sá tími mun koma 😉

Aðalgleðifréttirnar eru þó þær að ég aðlagaði uppskriftina af ólífupestóinu sem mamma mín hefur oft gert – af GulurRauðurGrænn&Salt 🙂 Þetta pestó er dásemdin ein og þegar ég var að búa svona til fyrir mömmu á föstudaginn átti ég virkilega erfitt með mig. Síðan lenti ég í vandræðum, þar sem hér á Króknum er hvorki hægt að fá pestó né sólþurrkaða tómata án allskyns aukaefna. Mamma leysti málið og keypti sólþurrkaða tómata frá Sollu fyrir mig í Bónus.

Svo hér kemur það!

ÓLÍFUPESTÓ!

Fyrst þarf að búa til pestó úr sólþurrkuðum tómötum – ég studdist við þessa uppskrift, en annars var þetta eiginlega of mikið dass til að geta kallast uppskrift.

Rautt pestó með sólþurrkuðum tómötum

1 poki sólþurrkaðir tómatar
1/2 bolli extra virgin olive oil
1 bolli ferskt basil
1/2 bolli kasjúhnetur
2 hvítlauksrif
Dass rauðar piparflögur
1 tsk sjávarsalt

Ég tróð tómötunum ofaní olínu og leyfði þeim að liggja þar í smástund á meðan ég undirbjó rest. Það er örugglega ekki verra að hafa þá lengur. Síðan skellti ég þessi öllu í töfrasprotann og mixaði og mixaði þar til þetta leit út eins og pestó 😉

Ólífupestó

Rautt pestó (hér fyrir ofan 😉 )
1 1/2 bolli döðlur
1 1/2 bolli kasjúhnetur
1 1/2 bolli svartar ólífur

Þar sem töfrasprotinn þoldi ekki allt gumsið, mixaði ég döðlur og kasjúhnetur sér, síðan ólífur, og hrærði þessu öllu saman við pestóið með sleif.

Og svona leit góðgætið út:

WP_20150623_17_39_28_Pro

Og þetta bragðast mun betur en það lítur út! Ég skellti þessu á maísköku (Sollu eru bestar!). Ég var mjög svo sátt með útkomuna, þetta er vissulega svolítið bragðsterkara en upphaflega, en þetta hefur eiginlega vakið of mikla lukku á mínu heimili, og mamma og systur mínar eru óþarflega duglegar í að borða þetta frá mér.

Og fyrst ég er á annað borð farin að tala um maískökur, þá vil ég sýna ykkur súpereinfalda sætabrauðið mitt 🙂

WP_20150623_18_12_23_Pro

Maískaka, sykurlaus sulta (Til dæmis þessa langa mjóa) og slatti af möndluflögum! Og já, þetta er svo gott að ég gat varla hamið mig á meðan ég tók myndina og núna fæ ég vatn í munninn af að skrifa þetta 😉

Og þar sem ég veit þið verðið sorgmædd ef þið fáið ekkert að heyra um chia-ævintýrin, þá set ég hér inn mynd af besta grautnum hingað til – sem ég vildi óska að væri fallegra grænni, en hann bragðast að minnsta kosti dásamlega 🙂 Uppskriftin af honum byggir að mestu á uppskrift @thegreatuncooking á instagram – en þó með örlitlum breytingum.

Avókadó-morgunmats-æði!

Eitt gómsætt og grænt avókadó
Ein appelsína
Hálf pera (eða banani ef þið eruð fyrir slíkt)
8 msk chiafræ (vatnslegin 😉 )

WP_20150624_09_47_57_Pro

Þessi morgunmatur var svo góður að það er eiginlega synd að hann hafi ekki fengið sína eigin bloggfærslu! Skellið avókadó, peru og appelsínu í töfrasprota og blandið eins vel og hægt er, og setjið síðan chia fræin útí. Njótið í botn!

Og já, í gær gerði ég dásamlega góðan ís úr bókinni hennar Nönnu Rögnvalds – Sætmeti án sykurs og sætuefna. Ég mæli með henni 😀

En meira hef ég ekki að segja í bili – lífið er dásamlegt – hafið það gott!

Gleðilegan alþjóðlegan jógadag! …og ljúffengar salatvefjur :)

Já, í dag er haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn alþjóðlegur jógadagur – og því ber að fagna 🙂 Reyndar finnst mér að það eigi að fagna öllum dögum, og vil benda ykkur á þessa frábæru grein sem ég las í dag um þakklæti 🙂 (Og ef þið eruð ekki búin að ná ykkur í Pocket appið mæli ég sterklega með því, alltaf greinar tilbúnar í lestur).

En ég er nú reyndar bara að skella inn örstuttu bloggi og aðallega myndum af ljúffenga kvöldmatnum mínum – sem sannar bara hvað þetta er ótrúlega einfalt 🙂 Ég byrjaði daginn vissulega á chia graut – með frosnum ávöxtum að hluta svo hann var meira eins og ís – og borðaði síðan rest af fiski og grænmeti. En salatvefjurnar voru æði 🙂 Svo einfaldar og gómsætar 🙂
WP_20150621_21_34_04_Pro

Þetta er lambhagasalat (velja stór blöð) með allskyns gúmmelaði inní 🙂 Ég setti appelsínugula papriku, gúrku, avókadó, kirsuberjatómata, jarðaber (mmmm…), mangó, klettasalat (því auðvitað á maður að setja meira salat inní salat!), furuhnetur og ristaðar kókosflögur 🙂 Og já, ef ykkur finnst þetta aðeins of mikið grænmeti mæli ég með þessari grein 🙂

WP_20150621_21_35_07_Pro

Ég skora á ykkur að prófa þetta! 🙂 Og það er örugglega ágætt að bæta kjúklingi í þetta líka, en eins og þið vitið kannski hef ég ákveðið að taka kjötið út líka næstu daga 🙂 En fiskinum held ég inn, held ég gæti seint sleppt honum 🙂

En ekki hef ég meira að deila með ykkur í bili, ég er bara ótrúlega ánægð með hvað þetta hefur gengið vel og bið góða nótt 🙂

Viku lokið og þar með þriðjungi af áskoruninni!

Í kvöld verð ég búin með viku af áskoruninni – ég trúi því ekki hvað þetta er fljótt að líða! Og já, ég veit ég hef ekkert skrifað síðustu tvo daga, það einfaldlega gleymdist – ég hef ekki haft neitt merkilegt að segja og enn er lífið eins og það var 🙂

Ég trúi því varla hvað þetta er fáránlega auðvelt. Ég er komin með góða rútínu í matnum og nýjasta viðbótin er sítrónuvatn í morgunsárið. Og vissulega er ég að drekka það hér á meðan ég skrifa þetta 🙂 Hérna í haust var allt vaðandi í greinum um gæði sítrónuvatns, svo ég ákvað að prófa þetta – og hef reyndar fulla trú á þeim áhrifum sem þetta hefur. Og ef ekki, þá er þetta alla vega mjög hressandi og fullt af góðum vítamínum 🙂

WP_20150620_11_31_39_Pro

Svona lítur góðgætið út – en bragðast mun betur 😉 Þetta er einfaldlega hálf sítróna kreist í glas og fyllt upp með heitu vatni. Mjög fljótlegt, einfalt og hressandi 🙂 Og já, ég er pínu eins og Trendsetterinn núna, búin að troða fullt af Ittala kertastjökum á myndina 😉 Það blogg er algjör snilld 🙂

Síðan hefur allt annað gengið sinn vanagang, auðvitað hef ég fengið mér chia graut á morgnana – en þessi avókadó-grautur er undir áhrif frá @thegreatuncooking á instagram. Ég ætla að setja inn uppskrift af honum seinna. Og auðvitað ætti hann að vera töluvert fallegri á litinn, en það er ekki jafnauðvelt að fá mjúk avókadó hér eins og með einni ferð í Krónuna fyrir sunnan 😉

WP_20150620_15_15_20_ProOg já, jarðaber – mmmm! 🙂

Á föstudagskvöldið steikti ég steinbít (möndlumjöl í stað rasps – enginn munur!), en með honum gerði ég hrísnúðlur (sem eftir á að hyggja ég hefði viljað sleppa), niðurskorið ferskt grænmeti og ávextir og gúmmelaði ofaná – perur, döðlur og möndluflögur steiktar á pönnu.

WP_20150619_20_43_28_ProÞetta er því allt saman að ganga eins og í sögu 🙂 Það erfiðasta hingað til var hins vegar að búa til ólífupestó fyrir mömmu án þess að borða það sjálf – en ég er að vinna að því að búa til uppskrift sem ég “má” borða 😉

En annars hef ég ekkert meira að segja – nema það að ég er alvarlega að spá í því að sleppa því að borða kjöt það sem eftir er af áskoruninni, ég held það verði meira að segja ekki svo erfitt. Ég hugsa samt að ég haldi fiskinum inni – en það á eftir að koma í ljós. Ég mæli með því að þið kíkið á mataræði eftir blóðflokkum – mér finnst það alla vega mjög áhugavert 🙂

Hafið það gott 😉

P.s. Ég tók fyrsta daginn í 100 daga hugleiðsluáskorun (tilraun tvö) í morgun – ætla mér að skrifa um það á næstunni 🙂

Fjórða degi lokið! :D

Ég hef nú ekki mikið um að tjá mig í dag, en til að standa við mín orð skelli ég hinn nokkrum myndum af gúrmé dagsins 😀

Ég bara trúi því varla hvað þetta er einfalt, hingað til hefur mér alltaf vaxið það í augum hvað ég eigi að fá mér að borða og endað í að vera allt of svöng, auk þess að vera búin að narta í eitt og annað á meðan ég reyni að ákveða mig. Núna er úrvalið svo lítið – en samt svo fjölbreytt – að ég veit nákvæmlega hvað er í boði. Svo þetta hefur aldrei verið svona einfalt 🙂

Í morgunmat fékk ég mér þennan gullfallega fjólubláa graut 😉

WP_20150618_10_59_14_Pro

Í þessu góðgæti eru dass af frosnum bláberum (íslenskum, handtíndum!), biti af peru, möndluflögur og chia fræ – en í þetta sinn um helmingi meira en síðast, 6 msk. Því ég áttaði mig á því að ég var að setja mun minna af chia fræjum út í þennan graut en ég gerði venjulega, þar sem þau eru útþanin – en magnið sem ég er með í krukkunni ætti í raun bara að endast mér í fjóra daga, u.þ.b. hálfur bolli á dag.

Kvöldmaturinn var álíka ljúffengur 🙂

WP_20150618_20_05_23_Pro

Eftir Hot yoga hjá Daníel (Mæli með því! Sjá Þreksport) þá var ég alveg tilbúin í mikinn og góðan mat. Það kom mér reyndar á óvart, ég var nokkurn veginn að búast við því að vera kannski ekki jafn orkumikil í jóganu þar sem ég hef ekki borðað jafnmikið undanfarið, en þessi tími gekk jafnvel betur en áður og er ég nokkuð viss um að mataræðið spilar þar inní. Þessi máltíð stóð alveg undir væntingum – og í fullkomnum hlutföllum eins og lýst var í greininni sem ég deildi hér fyrsta daginn – þá kjöt vs. grænmeti, en ég náði þó ekki að klára allan kjúklinginn – er eitthvað að verða minna fyrir kjöt þessa dagana.

Alla vega, þetta er: Sætkartöflu- og blómkálsstappa, kjúklingur (úrbeinuð læri, eini frosni, beinlausi kjúklingurinn sem ég hef fundið en er ekki ísprautaður), niðurskorin paprika og gúrka og gómsætt steikt grænmeti – brokkolí, sveppir, kókosflögur og furhnetur (og SMJÖR!).

En talandi um það hvað ég er farin að vera minna fyrir kjöt, er hægt að tengja það við blóðflokkinn minn, en ég er í A.

Type As flourish on a vegetarian diet – if you are accustomed to eating meat, you will lose weight and have more energy once you eliminate the toxic foods from your diet. Many people find it difficult to move away from the typical meat and potato fare to soy proteins, grains and vegetables. But it is particularly important for sensitive Type As to eat their foods in as natural a state as possible: pure, fresh and organic (Dr. D’Adamo).

Þetta þykir mér einstaklega áhugavert (þó ég sé mjög svo á móti sojakjötinu og mun líklega seint borða það) og því er spurning hvort næsta skref sé einfaldlega að taka út allt kjöt til að sjá hvað gerist þá. Miðað við þessa lýsingu ætti það að hafa góð áhrif á mig, en það er spurning hvort ég gæti ekki enn haldið eftir fiskinum. Þetta er eitthvað sem ég þarf að skoða betur 😉

En fyrir ykkur sem skiljið enn ekki þessa vitleysu í mér – eða viljið einfaldlega lesa eitthvað skemmtilegt – var mér bent á þessa sprenghlægilegu grein í dag, einungis nafnið hljómar vel: I went paleo and now I hate everything. Ég get nú ekki sagt að ég sé á sama stað í lífinu, en ég er þó svo sannarlega ekki hætt að borða súkkulaði og ís fyrir lífstíð, en get eftir þetta mataræði komist að því hvers kyns sætindi fara betur í mig en önnur.

En nú hef ég ekki meira að segja í bili, enda klukkan orðin margt – Góða nótt og takk fyrir lesturinn 🙂

 

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Þriðja deginum hér með lokið :)

Gleðilega hátíð kæru lesendur 😉 Í dag er 17. júní, sem hefur líklega ekki farið framhjá mörgum 🙂 Því fylgir auðvitað sukk og svínarí, auk þess sem ég fór í eitt barnaafmæli í dag. Það var því nóg um freistingarnar í dag, en auðvitað stend ég við mín orð 🙂

Svo, hvað er ég þá að borða?

Í kvöldmatinn í gær gerði ég mér kjötbollur, hrísnúðlur og steikta sveppi – en hrísnúðlurnar eru nauðsynlegar fyrir pastafíkilinn mig 🙂

Í morgun borðaði ég síðan morgunmat í svipuðum dúr og í gær, í þetta sinn hálft avókadó og hálf pera mixuð með chia fræjum og glútenlausu haframjöli.

WP_20150617_13_10_07_Pro

Í kvöldmatinn borðaði ég síðan aðeins hollari útgáfu af pylsupasta 🙂

WP_20150617_20_07_28_Pro

Í það fóru hrísnúðlur, pylsur (100% pylsur keyptar í Ísbúðinni Laugalæk), brokkolí (því mottó-ið mitt er brokkolí í öll mál!), paprika og nýjasta æðið, möndluflögur með í steikinguna. Síðan til að bæta aðeins upp fyrir kökuátið setti ég nokkra döðlubita með, sem gera þetta mun sætara. Og auðvitað gúrka, sem er nýjasta uppáhaldið mitt 🙂

Um miðjan dag borðaði ég svipaða steikingu af grænmeti.

Ég reyni að drekka te á hverjum degi (Mæli með Pukka detox og lakkrísteinu frá Yogi Tea). Ég hef einnig náð því undanfarna daga að drekka tvo lítra af vatni á dag, enda er flotta flaskan mín með teljara í lokinu sem hjálpar mér að muna hvað ég hef drukkið mikið. Auk þess er ég vandræðalega tengd henni og fer ekki út úr húsi án hennar, sem verður til þess að vatnsdrykkjan gleymist ekki.

Ég hef tekið eftir því að ég borða mun minna núna, en ég er ekkert endilega svöng, bara ekki sífellt södd eins og ég var. Núna er ekki jafn einfalt að maula á einhverju millimáli endalaust, auk þess sem súkkulaðikexið hefur fastari tök á sykurpúkanum en gulræturnar.

Ég er þar af leiðandi mjög ánægð með það sem af er orðið, þetta er ekki jafn erfitt og ég bjóst við, og ég trúi því að þetta sé að hafa góð áhrif á mig. Ég er líka nokkuð viss um að ég mun seint sjá eftir því að hafa ekki borðað rjómakökuna í veislunni (þó ég fái vissulega vatn í munninn við að skrifa þetta), því það koma alltaf aðrar rjómakökur! 😉 Og þá er líka hægt að gera þær í hollari kantinum, eftir að þessum tæpa mánuði er lokið.

Já, ég er líklega ekki búin að tala sérlega mikið um tilgang þessa mataræðis. Tilgangurinn með því, frá mínu sjónarhorni, er að greina hvaða matur hefur slæm áhrif á mig og hvaða matur hefur ekki slæm áhrif, þó hann sé ef til vill ekki í hollari kantinum. Ef þið hafið lesið greinina sem ég tengdi við hérna fyrsta daginn, þá er talað um það að það taki líkamann um 21-3 daga að “núllstilla” sig. Eftir það bæti ég smám saman inn einnig tegund í einu og finn næstu tvo sólarhringa hvaða áhrif sú fæða hefur á mig. Með þessu vonast ég til að geta greint frekar hvaða matur hefur slæm áhrif á mig og hvað ég eigi að forðast í mataræðinu frekar en annað.

En svo ég komi nú að öðru, þá er ég að reyna að nýta þessa áskorun til að bæta mun meira en einfaldlega hvað ég er að borða, en eitt af því er að borða mindfully – með hugann við verkið. Ég er sjálf orðin mjög gjörn á það að vilja helst borða fyrir framan sjónvarpið, eða lesa eitthvað í símanum á meðan ég borða – en með þeim hætti er ég vissulega ekki að veita því hvað ég borða eða hvernig mér líður meðan ég borða athygli. Ég er því að reyna að “lækna” samband mitt við mat á þessu tímabili, en ég er einnig alveg viss um að ég stunda nokkuð mikið “tilfinningaát” – að borða af öðrum ástæðum en svengd. Ein regla sem ég er að taka upp er að borða aðeins þegar ég sit, en með þeim hætti er ég minna að nasla eða borða í flýti – en það hefur reyndar minnkað svo mikið undanfarið að það er ekki jafnmikil þörf fyrir þá reglu nú en áður.

En nú er nóg komið af þvaðri – takk fyrir að nenna að lesa þetta 😉 En vissulega er ég að mestu að skrifa þetta fyrir sjálfa mig 🙂

Yfir og út! 😉

Fyrsta deginum lokið og ný gerð af morgunmat :)

Nú hef ég lokið fyrsta deginum og ég sver að mér er strax farið að líða betur. Ég borðaði reyndar mjög lítið í gær, aðallega ávexti og grænmeti, en man líka ekki eftir að hafa losnað svona hratt við kvef. Í dag var fyrsta skrefið að finna nýja gerð af chia graut sem myndi passa inní þetta mataræði, en ég ætla í bili að sleppa keyptri mjólk, þó hún sé örugglega ekki mjög slæm, en þó inniheldur slatta af aukaefnum. Ég prófaði fyrir nokkrum vikum avókadóbúðing með chiafræjum, og er þessi chia grautur undir áhrifum frá honum.

Í gærkvöldi byrjaði ég á því að setja chia fræ í vatn, til að geta notað þau í morgunmatinn (svo ég þyrfti ekki að bíða!). Ég setti 4 msk af chia fræjum í krukku sem tekur u.þ.b. hálfan líter. Í morgun leit þetta svona út:

WP_20150616_12_12_52_Pro

Morgunmaturinn sem ég gerði í morgun var ofureinfaldur, ég skellti hálfu epli í töfrasprotann (flysjuðu og brytjuðu) og setti út í það þrjár matskeiðar af chia fræjunum úr krukkunni. Yfir þetta setti ég síðan kókosflögur.

WP_20150616_12_13_08_Pro

Margir myndu nú kannski segja að þetta væri svolítið eins og barnamatur, en mér finnst þetta mjög gott 😉 Ég ætla að reyna að gera þetta fjölbreyttara og reyni að setja inn uppskrift af svona morgungraut með avókadó á næstunni. Einnig er hægt að gera þetta matarmeira með haframjöli (glúteinlausu) en ég þarf að leita af því hér á Króknum.

Annars er margt annað sem ég er að reyna að bæta mig í núna, annað en hreint og beint mataræðið. Ég ætla að drekka meira vatn, og byrja alla daga núna á einni svona flösku.

WP_20150615_13_07_36_Pro

Svona flaska fæst í Fjarðakaup og Iceland, og mögulega á fleiri stöðum. Ég er ótrúlega ánægð með hana, og kostar hún bara 1500 kr. En eins og ég sagði, ein svona flaska þegar ég vakna, sem er hálfur líter. Samkvæmt einhverju appi sem ég er með í símanum á ég, miðað við hæð og þyngd, að drekka tvo lítra af vatni á dag, og náði ég því í gær.

Annað sem ég ætla að taka í gegn er svefninn, en ég stefni á að vakna í síðasta lagi kl. 9 alla daga núna, en markmiðið er samt að færa það neðar, í 7 eða 8. Ég hef alltaf átt í svolitlu stríði við svefn, þarf að sofa mikið en á samt sem áður oft erfitt með að sofna á kvöldin. Ég las um daginn að það tæki 21 dag að búa til venju, og vonandi mun það takast í þetta skiptið.

Annars er ég mjög ánægð með þessa áskorun það litla sem búið er af henni, auðvitað langar mig hrikalega mikið í allt sem ég hef ákveðið að borða ekki, einfaldlega þar sem ég “má” ekki fá það. En annars finnst mér þetta einnig vera búið að einfalda mataræðið mitt mjög. Á næstu dögum ætla ég að læra ýmislegt nýtt í eldamennsku og bakstri og deila með ykkur.

Og vitiði, mér finnst maturinn minn svo gómsætur. Hér er ávaxta- og grænmetisskálin sem ég fékk mér í morgunmat í gær með gómsætu tei 😀

WP_20150615_13_07_30_Pro

Hefur þú áhuga á að vera með? Endilega deildu þinni reynslu hér í athugasemdum 🙂

 

Mataræðisáskorun – Vilt þú vera með??

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mataræði og verið lengi að velta fyrir mér hvernig mataræði henti mér best, en ég er alla vega viss um að eins og það er í dag er ekki nógu gott fyrir mig og minn líkama.

Ég hef því ákveðið að taka 23 daga í annars konar mataræði, takmörkunarmataræði (sem mun vera íslensk þýðing á orðinu elimination diet), sem er samblanda af svo mörgu sem ég hef lesið. Hér er mjög áhugaverð grein um þetta mataræði, þar sem meðal annars er fjallað um að ekkert eitt mataræði virki fyrir alla, sem er ein aðalástæða þess að ég er að prófa þetta mataræði. Á degi 24 mun ég síðan bæta við einhverju af þessu sem ég sleppti, sem ég hef nú þegar ákveðið að verði egg, þar sem það er það sem ég efast helst um að hafi slæm áhrif á mig. Síðan mun ég bæta smám saman inn öðrum matvælum.

Þetta mataræði er einnig undir áhrifum frá Paleo, Pegan, bókinni 30 dagar og þeirra mörgu greina sem ég hef lesið um að sleppa sykuráti. Ég mun einnig reyna að tengja hér inn margar áhugaverðar greinar sem ég hef lesið um mataræði. Ég hef einnig fjárfest í nýju bókinni eftir Nönnu Rögnvalds, Sætmeti án sykurs og sætuefna, sem ég ætla að nýta mér, þó ég þurfi nú að gera einhverjar breytingar á þeim uppskriftum þar sem þær eru ekki glútenlausar. Það eru því spennandi tímar framundan með mikilli tilraunaeldamennsku 😉

Meðtalinn er dagurinn í dag og til og með 8. júlí. Ég ætla að skrifa um það hér, en ég held að það muni gera mér það auðveldara en er einnig tækifæri fyrir aðra að taka þátt ef áhugi er fyrir því.

Fyrir ykkur sem eruð að hugsa:

“Ógeðslega ömurlegt að hafa svona áskorun yfir sumartímann! Ég meina, grillveislur, pönnukökuát á pallinum, skúffukökur í útilegunni, svo við tölum ekki um allan ísinn!!”

Þá skil ég þá pælingu heilshugar, en þessi tími hentar mér langbest – mér finnst ég algjörlega ófær um að halda úti áskorun sem þessari í allri streitunni sem fylgir því hvað er mikið að gera í skólanum og ég er að fara til Svíþjóðar í haust, og ég ætla ekki að vera í einhverju svona þá. Svo þið sem viljið, getið tekið þátt í þessu.

Málið er einfaldlega það að það er aldrei skortur á afsökunum og ástæðurnar fyrir því að gera þetta ekki eru svo margfalt fleiri og auðfundnari en rök fyrir því að fara í þessar breytingar. Að breyta út af vananum og gera eitthvað nýtt, sem er flóknara og skilar ekki vellíðan samstundis (eins og ísát!) er alltaf erfitt. En ég trúi því að það verði til hins betra, og ætla mér að skilja eftir þessa daga hvaða matur hefur slæm áhrif á líkama minn.

Fyrst af öllu ætla ég (og mæli með því að þið sem viljið vera með gerið líka) að búa til lista yfir allt sem hefur verið að hrjá mig sem ég held að geti mögulega tengst mataræði, til að mynda þreyta, verkir í fótum, höfuðverkur og fleira, en einnig tel ég að það geti verið frelsandi að sleppa sykrinum, þar sem ef ég byrja í namminu vil ég sífellt meira og einfaldlega get ekki hætt!

Ég ætla líka að mæla mig, vigta og taka myndir – því þó markmiðið með þessu mataræði sé alls ekki að létta mig vil ég þó sjá hvort að þar verði einhver munur á.

Næsta mánuðinn ætla ég því að sleppa:

  • Sykur og gervisætum.
  • Öllum aukaefnum – rotvarnar-, bragð- o.fl.
  • Glúten (Hveiti, spelti o.s.frv.).
  • Mjólkurvörum.
  • Eggjum (Ég er sjálf ekki alveg sannfærð með þetta, en ætla að láta á það reyna).
  • Kartöflur.

En mér þykir þó mun betra að einbeita mér að því sem ég “má” borða – eða ætla að borða:

  • Grænmeti (og nóg af því!).
  • Ávextir.
  • Fisk (ennþá meira en ég hef verið að borða).
  • Kjöt (þó í minna mæli).
  • Hnetur og fræ.
  • Hýðishrísgrjón.
  • Glúteinlaust haframjöl.
  • Réttar fitur (að mínu mati): Kókosolía, smjör og kaldpressaðar olíur.
  • Te.
  • 100% súkkulaði (fæst í Heilsuhúsinu).

Ég á síðan örugglega eftir að þurfa að bæta við þessa lista, þar sem ég er veik heima í dag og hausinn er ekki alveg að virka eins og best væri á kosið. Veikindin gera fyrsta daginn bæði erfiðari, þar sem viljastyrkurinn er í lágmarki, en einnig meira hvetjandi, þar sem mig langar mjög að borða hreinna eftir sukk í veislum helgarinnar. En vissulega er ég nokkuð smeyk við að ýta á publish, því þá er ekki aftur snúið 😉

Ég ætla mér síðan að setja inn blogg á hverjum degi í þennan tíma, hvernig þetta gengur og jafnvel að setja inn einhverjar uppskriftir. Ef þú vilt taka þátt í þessu með mér þætti mér vænt um að fá athugasemdir um hvernig þér gengur 🙂