Að læra hraðlestur :)

Fljótlega eftir að hraðlestrarnámskeiðin urðu vinsæl langaði mig mikið að skella mér á eitt slíkt. En mér hefur samt alltaf fundist það kosta fullmikið, þó ég sé fullviss um að það er hverrar krónu virði 🙂

Í dag ákvað ég þess vegna að læra sjálf hraðlestur, enda býður internetið upp á flest allt sem þarf til þess. Ég vil samt taka það fram að ég er bara búin að prófa þetta í einn dag, svo ég skrifa kannski seinna um það hversu mikið gagn var að þessum æfingum, enda býst ég fastlega við því að þurfa að æfa mig töluvert oftar 🙂

Upphaflega skoðaði ég þessa síðu en ákvað síðan að það hentaði mér betur að finna myndband á youtube og fylgja því, frekar en að lesa þennan texta.

Fyrst skoðaði ég þetta myndband :

Það er að vísu ekki að finna miklar upplýsingar í þessu myndbandi, en samt sem áður tókst mér að bæta lestrarhraðann minn um 10%, bara með því að lesa ekki orðin “með munninum”, hvort sem það var upphátt eða í hljóði.

Og hvernig veit ég hversu hratt ég las? Hérna er góð vefsíða til að mæla lestrarhraðann – ekki samt gera sömu mistök og ég og mæla þetta of oft, því inná síðunni eru bara þrjár mismunandi sögur, mér hefur alla vega ekki tekist að lesa aðra texta en þessa þrjá.

En það myndband sem ég notaði til að æfa hraðlesturinn var þetta :

Eins og ég sagði áðan hef ég ekki prófað þetta alveg nógu mikið, en samkvæmt lestrarprófinu fór ég úr 24% fyrir neðan meðaltal (en ég tel að við lesum hægar á erlendum tungumálum) í 61% hraðar en meðaltal. En ég á hins vegar eftir að prófa þetta miklu meira! Ég ætla líka að skoða fleiri myndbönd, lesa meira og prófa mig áfram með hraðlesturinn.

Ég var í svolitlum vafa hvort ég ætti að æfa mig á íslenskri eða enskri bók. Ég byrjaði að prófa þetta á íslensku, þó að prófið væri á ensku, en ætla að prófa þetta með enska bók síðar.

Ég viðurkenni alveg að mér fannst þetta fyrirbæri að lesa ótrúlega hratt án þess að skilja nokkuð mjög undarlegt og líklega þarf að æfa þetta oftar til að geta nýtt sér þetta. Strákurinn í myndbandinu vill að það sé gert einu sinni í viku.

Þó ég hafi kannski ekki mikla reynslu, mæli ég samt með því að þið prófið þetta. Að lesa hraðar hentar mér einstaklega vel í háskólanámi, en það mun líka gagnast mér í að lesa aðrar bækur en námsbækurnar, enda er listinn minn yfir þær bækur sem ég ætla mér að lesa töluvert lengri en ég kemst yfir næstu árin.

Gæti verið snjallt að kenna þetta í efstu bekkjum grunnskóla 🙂

Endilega skiljið eftir athugasemdir og segið mér hvernig ykkur gekk 🙂