Heimsins einfaldasta konfekt :)

WP_20141129_20_57_07_Pro

Já, ég sver að þetta er heimsins einfaldasta konfekt 😀

Það er því varla hægt að kalla þetta uppskrift, en þessa aðferð er í raun hægt að nota til að gera hvers kyns konfekt 🙂

Konfektið á myndinni er svona:

70% súkkulaði
Hnetur, t.d. möndlur, kasjúhnetur og pekanhnetur
Ristaðar kókosflögur

Súkkulaðið er brætt í potti og á meðan er hnetum og jafnvel kókosflögum skellt í töfrasprotann eða matvinnsluvélina til að gera eins konar kurl. Síðan er hnetu- og kókoskurlinu hrært saman við súkkulaðið – og það er eins með þetta eins og rice crispies kökurnar, þú munt koma miklu meira magni af hnetum í þetta súkkulaði en þú heldur 🙂

Á myndinni hér fyrir ofan var ég svo dugleg að nenna að búa til kúlur með skeið og setja á bökunarpappír, og setti síðan ristaðar kókosflögur ofan á. Núna geri ég þetta hins vegar öðruvísi, sem er miklu fljótlegra. Ég helli einfaldlega úr pottinum á stórt skurðarbretti og dreifi úr súkkulaðigummsinu, þjappa því niður á plötuna, dreifi kókosmjöli yfir og leyfi því síðan að storkna. Þá sker ég stykkið niður í litla ferninga 🙂

Þessi síðarnefnda aðferð er miklu fljótlegri, en þar fyrir utan er stór kostur. Því þar sem ekki verður allt súkkulaðið að fínum konfektmolum, heldur verður eftir súkkulaðikókosmylsna sem er alveg dásamlegt að setja út á chia grautinn á tyllidögum, eða bara alla daga! 🙂

Það eru engin takmörk fyrir þeim fjölmörgu útgáfum sem hægt er að gera með þessu konfekti, en hér koma nokkrar hugmyndir:

Rjómasúkkulaði, hvítt súkkulaði, suðusúkkulaði, 70% súkkulaði 🙂
Möndlur, kasjúhnetur, pekanhnetur, valhnetur, pistasíur, salthnetur, kókosflögur og kókosmjöl 🙂
Döðlur, apríkósur og rúsínur.
Fyrir nammidagana er hægt að bæta í þetta lakkrískurli, karamellukurli eða smartís svo fátt eitt sé nefnt.

Gangi ykkur vel að gera konfekt, og mér þætti skemmtilegt að fá að vita hvernig til tekst 🙂

P.s. Svo er þetta líka svo ótrúlega hollt með 70% súkkulaði, hnetum, kókos og döðlum að það er hægt að borða þetta án svakalegs samviskubits 😀