Namm namm!
Allt gengur eins í sögu hérna megin, í gær hafði ég lokið tveimur vikum í mataræðisáskoruninni 🙂 Þetta gengur mjög vel, mun betur en ég bjóst við 🙂
Það sem helst freistar mín er rjómasósan sem er núna í dalli inní ísskáp, afgangar af slíkri sósu eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég veit vel að ég mun aldrei hætta að borða svona sósu. En þessi áskorun mun vonandi sýna mér hvaða áhrif osturinn hefur á mig og hjálpað mér að ákveða í hversu miklu mæli ég vil hafa hann í mataræðinu mínu.
Núna á ég í raun bara viku eftir, á mánudaginn næsta ætla ég að bæta inn eggjum og gefa því tvo sólarhringa. Því næst bæti ég við mjólkurvörunum. Hvað varðar sykurinn og hveitið veit ég vel að mér líður mun betur án þess, en ég þó eftir að athuga hvort það er glúten almennt eða einfaldlega hvítt hveiti sem hefur slæm áhrif.
Þegar ég renni yfir myndirnar mínar sé ég að ég hef alveg óskaplega mikið að segja ykkur frá í dag 😉
Í fyrsta lagi skelli ég hér inn tveimur myndum af fínasta hádegismat, en appelsínugulur virðist vera í uppáhaldi 😉
Soðinn fiskur, sætar kartöflur, gulrætur og brokkolí 🙂 Mjög svo bragðgott, einfalt og fljótlegt 😉 Magnið af smjöri sem síðan bættist á diskinn fylgir ekki sögunni…
Í gær gerði ég svo kalt “salat” – rest af lambakjöti, sætar kartöflur, paprika, apríkósur og vínber.
Og já, ég treð möndlu-, kókos- eða heslihnetuflögum í allan mat 😉
Í hádeginu í dag eldaði ég líka gómsætan rétt þó svo að “ekkert” væri til – það er alveg merkilegt hvað er hægt að elda mikið úr tómum ísskáp 😉
Þetta mun vera sætkartöflurisotto 😉 Úber fancý fyrir þriðjudagshádegisverð og ótrúlega bragðgott 🙂 Það er nú varla uppskrift af þessu, en hér kemur það í stuttu máli 🙂
Sætkartöflurisotto
Fyrst sauð ég brún hrísgrjón og skar sætu kartöfluna í teninga og steikti á pönnu. Þegar hrísgrjónin voru suður skellti ég þeim út á pönnuna með sætu kartöflunum og setti svo til hliðar. Þá steikti ég á pönnu lauk, blómkál, appelsínugula papriku (því það er þemað!), döðlur og möndluflögur – um það bil allt sem ég fann í ísskápnum 😉 Þetta kryddaði ég í drasl, til dæmis með karrý og öðru gómsætu kryddi 🙂 Síðan hrærði ég hrísgrjónunum og sætu kartöflunum saman við og setti aðeins meira karrý og svolítið smjör með 🙂 Þetta með salati bragðaðist svona ljómandi vel 🙂
Af ólífupestóinu er svo að frétta þetta helst að það vakti svo mikla lukku að það kláraðist! Ég var svona að vona að hinum á heimilinu þætti það ekkert svo gott og vildu frekar upprunalegu útgáfuna, en þar skjátlaðist mér. Heiða frænka fékk meira að segja í krukku með sér heim 😉
Já, þessi krukka var full kvöldið áður…
En þetta blogg einkennist af því að fara út og suður, en helsta vandamálið við þessa áskorun er vissulega skortur á súkkulaði 🙂 Ég bjargaði málunum í gær þegar ég bjó til súkkulaðismjör 🙂
Það heppnaðist mjög vel, sérstaklega þar sem ég bjó uppskriftina til á staðnum 😉 Eins og allar mínar uppskriftir er hún ekkert sérlega nákvæm og þurfa bragðlaukarnir eiginlega að fá að ráða för 🙂
Til að geta sagt ykkur uppskriftina af þessu verð ég samt fyrst að sína ykkur hnetusmjörið sem ég bjó til hérna fyrir nokkru síðan, þar sem það var notað í uppskriftina. Inní paleo mataræðinu sem ég hef mér til fyrirmyndar eru nefnilega engar jarðhnetur, þar sem þær eru ekki hnetur heldur baunir. Ástæðan fyrir því að þær eru teknar út úr mataræðinu nenni ég ekki að orðlengja hér, en í það minnsta hljóma þær ekki sérlega góðar fyrir mann. Þar sem annars konar hnetusmjör kostar sitt ákvað ég að búa til mitt eigið sem tókst bara ljómandi vel 🙂 Ég er hins vegar ekki alveg nógu dugleg að borða eintómt hnetusmjör og því er þessi súkkulaðiútgáfa frábær lausn á öllu hnetusmjörinu sem ég á 😀
Að búa til sitt eigið hnetusmjör er alveg fáránlega einfalt – það kostar bara smá þolinmæði 🙂
Hnetunum er skellt í matvinnsluvél – í ég setti möndlur, kasjúhnetur og pekanhnetur. Þetta er síðan mixað í ca. 10 mínútur eða þar til það lítur út eins og hnetusmjör 😉 Aðalatriðið í þessari uppskrift er einfaldlega að skella græjunni í gang og fara eitthvað annað á meðan, en ekki alltaf að vera að kíkja, pota og smakka – þá verður þetta aldrei til! 🙂
Svona lítur góðgætið út eftir 10 mínútur 😀 Þessu skellti ég í krukku og hef notað í ýmislegt, til dæmis einfaldlega smurt ofan á eplabita 🙂 Núna held ég að ég muni samt bara smyrja eplið með súkkulaðismjöri 😉
Súkkulaðismjör
12 döðlur (medjool, þ.e. ferskar)
Dass af vatni (volgu?)
3 msk kakó
3 msk ólífuolía (kaldpressuð! – eða kókosolía)
um það bil sirka 8 skeiðar hnetusmjör (með matskeið)
Ég skellti í töfrasprotann 12 döðlum (einfaldlega þar sem ég ákvað að klára úr pakkanum), munið bara að taka steininn úr 🙂 Út á það setti ég vatn, ég set að einhverjum ástæðum volgt vatn, en veit ekki hvort það skiptir máli. Þetta er síðan mixað þar til þetta verður að einskonar þunnu kremi, bætir við vatni ef þörf er á. Út á þetta setti ég matskeið af ólífuolíu, en hefði líklega frekar notað kókosolíu hefði hún verið til. Síðan bætti ég við kakói – endilega smakkið eftir þetta til að vita hversu mikið kakóbragð þið viljið á móti sætunni 🙂 (Stoppið hér ef þið viljið íssósu!). Eftir það skellti ég hnetusmjörinu út í og ólífuolíunni til að vega á móti svo auðveldara væri að vinna þetta saman. Ég byrjaði á fjórum skeiðum (ég veit, hræðileg mælieining!) ef hnetusmjöri og þá var það mjög sætt, líklega eitthvað sem hægt hefði verið að nota sem köku á krem, en þar sem ég ætlaði að borða þetta dagsdaglega setti ég meira hnetusmjör útí. Ég er mjög svo ánægð með útkomuna og núna er ég komin með hollt og gott súkkulaði inní lífið 😉
Ég skellti þessu síðan á maísköku og nokkrum pekanhnetum (eða kasjú) ofaná 🙂
Nammi namm 😉
Í morgun datt mér síðan í hug að setja smá (samt ekki smá) súkkulaðismjör útí chia grautinn (með eplum og ferskjum) – það bragðaðist náttúrulega dásamlega – en ég setti aðeins of mikið og var pakksödd löngu áður en grauturinn kláraðist, sem hefur aldrei gerst áður 😉
Í þessu samhengi vil ég bara benda ykkur á hvað er auðvelt og fljótlegt að skella í gómsætt snarl sem nærir sætupúkann 🙂
Svo má auðvitað ekki enda þetta nema með nýjustu fréttunum af chia-grautnum 😉
Avókadó-nammi-gottið á auðvitað ást mína alla, svo að þegar það er til avókadó og appelsína er ekkert annað í boði í morgunmat. Sjáið bara hvað þetta er fallegt!
En hins vegar trúi ég því ekki að ég hafi gleymt að setja hér inn morgunmatinn minn síðan á föstudaginn! Því ís í morgunmat er svo sannarlega frásögu færandi 🙂 Þannig var mál með vexti að allir (þá meina ég allir!) ávextirnir á heimilinu voru búnir, fyrir utan þá frosnu. Það var þó ekki hægt að byrja daginn öðruvísi en með chia graut og því brá ég á það ráð að nota bara frosið mangó og bláber 🙂 Þetta varð auðvitað að ísköldum en gómsætum morgunmatsís 😀
Og algjörlega nauðsynlegt að byrja svona dag á ís – enda var alveg steikjandi hiti úti og sólin lék við okkur allan daginn 😀
Svo já, ég er að borða súkkulaði og ís í morgunmat þessa dagana, ég get varla haldið áfram að kalla þetta áskorun! 😉
En takk fyrir lesturinn ef einhver nennti að lesa þessa langloku 😉
Á morgun er síðan planið að baka köku og auðvitað skella inn uppskriftinni af henni 🙂
Ég er farin að fá mér maísköku með súkkulaðismjöri, er farin að slefa hérna á lyklaborðið við tilhugsunina…