Fyrsta deginum lokið og ný gerð af morgunmat :)

Nú hef ég lokið fyrsta deginum og ég sver að mér er strax farið að líða betur. Ég borðaði reyndar mjög lítið í gær, aðallega ávexti og grænmeti, en man líka ekki eftir að hafa losnað svona hratt við kvef. Í dag var fyrsta skrefið að finna nýja gerð af chia graut sem myndi passa inní þetta mataræði, en ég ætla í bili að sleppa keyptri mjólk, þó hún sé örugglega ekki mjög slæm, en þó inniheldur slatta af aukaefnum. Ég prófaði fyrir nokkrum vikum avókadóbúðing með chiafræjum, og er þessi chia grautur undir áhrifum frá honum.

Í gærkvöldi byrjaði ég á því að setja chia fræ í vatn, til að geta notað þau í morgunmatinn (svo ég þyrfti ekki að bíða!). Ég setti 4 msk af chia fræjum í krukku sem tekur u.þ.b. hálfan líter. Í morgun leit þetta svona út:

WP_20150616_12_12_52_Pro

Morgunmaturinn sem ég gerði í morgun var ofureinfaldur, ég skellti hálfu epli í töfrasprotann (flysjuðu og brytjuðu) og setti út í það þrjár matskeiðar af chia fræjunum úr krukkunni. Yfir þetta setti ég síðan kókosflögur.

WP_20150616_12_13_08_Pro

Margir myndu nú kannski segja að þetta væri svolítið eins og barnamatur, en mér finnst þetta mjög gott 😉 Ég ætla að reyna að gera þetta fjölbreyttara og reyni að setja inn uppskrift af svona morgungraut með avókadó á næstunni. Einnig er hægt að gera þetta matarmeira með haframjöli (glúteinlausu) en ég þarf að leita af því hér á Króknum.

Annars er margt annað sem ég er að reyna að bæta mig í núna, annað en hreint og beint mataræðið. Ég ætla að drekka meira vatn, og byrja alla daga núna á einni svona flösku.

WP_20150615_13_07_36_Pro

Svona flaska fæst í Fjarðakaup og Iceland, og mögulega á fleiri stöðum. Ég er ótrúlega ánægð með hana, og kostar hún bara 1500 kr. En eins og ég sagði, ein svona flaska þegar ég vakna, sem er hálfur líter. Samkvæmt einhverju appi sem ég er með í símanum á ég, miðað við hæð og þyngd, að drekka tvo lítra af vatni á dag, og náði ég því í gær.

Annað sem ég ætla að taka í gegn er svefninn, en ég stefni á að vakna í síðasta lagi kl. 9 alla daga núna, en markmiðið er samt að færa það neðar, í 7 eða 8. Ég hef alltaf átt í svolitlu stríði við svefn, þarf að sofa mikið en á samt sem áður oft erfitt með að sofna á kvöldin. Ég las um daginn að það tæki 21 dag að búa til venju, og vonandi mun það takast í þetta skiptið.

Annars er ég mjög ánægð með þessa áskorun það litla sem búið er af henni, auðvitað langar mig hrikalega mikið í allt sem ég hef ákveðið að borða ekki, einfaldlega þar sem ég “má” ekki fá það. En annars finnst mér þetta einnig vera búið að einfalda mataræðið mitt mjög. Á næstu dögum ætla ég að læra ýmislegt nýtt í eldamennsku og bakstri og deila með ykkur.

Og vitiði, mér finnst maturinn minn svo gómsætur. Hér er ávaxta- og grænmetisskálin sem ég fékk mér í morgunmat í gær með gómsætu tei 😀

WP_20150615_13_07_30_Pro

Hefur þú áhuga á að vera með? Endilega deildu þinni reynslu hér í athugasemdum 🙂

 

Mataræðisáskorun – Vilt þú vera með??

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mataræði og verið lengi að velta fyrir mér hvernig mataræði henti mér best, en ég er alla vega viss um að eins og það er í dag er ekki nógu gott fyrir mig og minn líkama.

Ég hef því ákveðið að taka 23 daga í annars konar mataræði, takmörkunarmataræði (sem mun vera íslensk þýðing á orðinu elimination diet), sem er samblanda af svo mörgu sem ég hef lesið. Hér er mjög áhugaverð grein um þetta mataræði, þar sem meðal annars er fjallað um að ekkert eitt mataræði virki fyrir alla, sem er ein aðalástæða þess að ég er að prófa þetta mataræði. Á degi 24 mun ég síðan bæta við einhverju af þessu sem ég sleppti, sem ég hef nú þegar ákveðið að verði egg, þar sem það er það sem ég efast helst um að hafi slæm áhrif á mig. Síðan mun ég bæta smám saman inn öðrum matvælum.

Þetta mataræði er einnig undir áhrifum frá Paleo, Pegan, bókinni 30 dagar og þeirra mörgu greina sem ég hef lesið um að sleppa sykuráti. Ég mun einnig reyna að tengja hér inn margar áhugaverðar greinar sem ég hef lesið um mataræði. Ég hef einnig fjárfest í nýju bókinni eftir Nönnu Rögnvalds, Sætmeti án sykurs og sætuefna, sem ég ætla að nýta mér, þó ég þurfi nú að gera einhverjar breytingar á þeim uppskriftum þar sem þær eru ekki glútenlausar. Það eru því spennandi tímar framundan með mikilli tilraunaeldamennsku 😉

Meðtalinn er dagurinn í dag og til og með 8. júlí. Ég ætla að skrifa um það hér, en ég held að það muni gera mér það auðveldara en er einnig tækifæri fyrir aðra að taka þátt ef áhugi er fyrir því.

Fyrir ykkur sem eruð að hugsa:

“Ógeðslega ömurlegt að hafa svona áskorun yfir sumartímann! Ég meina, grillveislur, pönnukökuát á pallinum, skúffukökur í útilegunni, svo við tölum ekki um allan ísinn!!”

Þá skil ég þá pælingu heilshugar, en þessi tími hentar mér langbest – mér finnst ég algjörlega ófær um að halda úti áskorun sem þessari í allri streitunni sem fylgir því hvað er mikið að gera í skólanum og ég er að fara til Svíþjóðar í haust, og ég ætla ekki að vera í einhverju svona þá. Svo þið sem viljið, getið tekið þátt í þessu.

Málið er einfaldlega það að það er aldrei skortur á afsökunum og ástæðurnar fyrir því að gera þetta ekki eru svo margfalt fleiri og auðfundnari en rök fyrir því að fara í þessar breytingar. Að breyta út af vananum og gera eitthvað nýtt, sem er flóknara og skilar ekki vellíðan samstundis (eins og ísát!) er alltaf erfitt. En ég trúi því að það verði til hins betra, og ætla mér að skilja eftir þessa daga hvaða matur hefur slæm áhrif á líkama minn.

Fyrst af öllu ætla ég (og mæli með því að þið sem viljið vera með gerið líka) að búa til lista yfir allt sem hefur verið að hrjá mig sem ég held að geti mögulega tengst mataræði, til að mynda þreyta, verkir í fótum, höfuðverkur og fleira, en einnig tel ég að það geti verið frelsandi að sleppa sykrinum, þar sem ef ég byrja í namminu vil ég sífellt meira og einfaldlega get ekki hætt!

Ég ætla líka að mæla mig, vigta og taka myndir – því þó markmiðið með þessu mataræði sé alls ekki að létta mig vil ég þó sjá hvort að þar verði einhver munur á.

Næsta mánuðinn ætla ég því að sleppa:

  • Sykur og gervisætum.
  • Öllum aukaefnum – rotvarnar-, bragð- o.fl.
  • Glúten (Hveiti, spelti o.s.frv.).
  • Mjólkurvörum.
  • Eggjum (Ég er sjálf ekki alveg sannfærð með þetta, en ætla að láta á það reyna).
  • Kartöflur.

En mér þykir þó mun betra að einbeita mér að því sem ég “má” borða – eða ætla að borða:

  • Grænmeti (og nóg af því!).
  • Ávextir.
  • Fisk (ennþá meira en ég hef verið að borða).
  • Kjöt (þó í minna mæli).
  • Hnetur og fræ.
  • Hýðishrísgrjón.
  • Glúteinlaust haframjöl.
  • Réttar fitur (að mínu mati): Kókosolía, smjör og kaldpressaðar olíur.
  • Te.
  • 100% súkkulaði (fæst í Heilsuhúsinu).

Ég á síðan örugglega eftir að þurfa að bæta við þessa lista, þar sem ég er veik heima í dag og hausinn er ekki alveg að virka eins og best væri á kosið. Veikindin gera fyrsta daginn bæði erfiðari, þar sem viljastyrkurinn er í lágmarki, en einnig meira hvetjandi, þar sem mig langar mjög að borða hreinna eftir sukk í veislum helgarinnar. En vissulega er ég nokkuð smeyk við að ýta á publish, því þá er ekki aftur snúið 😉

Ég ætla mér síðan að setja inn blogg á hverjum degi í þennan tíma, hvernig þetta gengur og jafnvel að setja inn einhverjar uppskriftir. Ef þú vilt taka þátt í þessu með mér þætti mér vænt um að fá athugasemdir um hvernig þér gengur 🙂