Fimmtudagsfjör og ólífupestó! :D

Jájá, nú hef ég ekkert skrifað síðan á sunnudaginn, það hefur verið nóg að gera og ég verið fjarverandi tölvu, alla vega í blogghugleiðingum. Mataræðið hefur gengið mjög vel núna undanfarið – en ég held ég sé ekki sammála því að fyrstu dagarnir hafa verið erfiðastir. Það er frekar núna, þegar mér er farið að líða betur, sem ég vil fara að fá mér eitthvað sem er ekki á lista. Núna er ég að klára ellefta daginn – svo ég er rétt hálfnuð 🙂

Það helsta sem er að frétta er að ég hætti við að hætta við – og ákvað að halda kjötinu inni, annað er einfaldlega of mikið. En ég er samt alveg viss um það að einhvern daginn mun ég prófa að vera grænmetisæta – sá tími mun koma 😉

Aðalgleðifréttirnar eru þó þær að ég aðlagaði uppskriftina af ólífupestóinu sem mamma mín hefur oft gert – af GulurRauðurGrænn&Salt 🙂 Þetta pestó er dásemdin ein og þegar ég var að búa svona til fyrir mömmu á föstudaginn átti ég virkilega erfitt með mig. Síðan lenti ég í vandræðum, þar sem hér á Króknum er hvorki hægt að fá pestó né sólþurrkaða tómata án allskyns aukaefna. Mamma leysti málið og keypti sólþurrkaða tómata frá Sollu fyrir mig í Bónus.

Svo hér kemur það!

ÓLÍFUPESTÓ!

Fyrst þarf að búa til pestó úr sólþurrkuðum tómötum – ég studdist við þessa uppskrift, en annars var þetta eiginlega of mikið dass til að geta kallast uppskrift.

Rautt pestó með sólþurrkuðum tómötum

1 poki sólþurrkaðir tómatar
1/2 bolli extra virgin olive oil
1 bolli ferskt basil
1/2 bolli kasjúhnetur
2 hvítlauksrif
Dass rauðar piparflögur
1 tsk sjávarsalt

Ég tróð tómötunum ofaní olínu og leyfði þeim að liggja þar í smástund á meðan ég undirbjó rest. Það er örugglega ekki verra að hafa þá lengur. Síðan skellti ég þessi öllu í töfrasprotann og mixaði og mixaði þar til þetta leit út eins og pestó 😉

Ólífupestó

Rautt pestó (hér fyrir ofan 😉 )
1 1/2 bolli döðlur
1 1/2 bolli kasjúhnetur
1 1/2 bolli svartar ólífur

Þar sem töfrasprotinn þoldi ekki allt gumsið, mixaði ég döðlur og kasjúhnetur sér, síðan ólífur, og hrærði þessu öllu saman við pestóið með sleif.

Og svona leit góðgætið út:

WP_20150623_17_39_28_Pro

Og þetta bragðast mun betur en það lítur út! Ég skellti þessu á maísköku (Sollu eru bestar!). Ég var mjög svo sátt með útkomuna, þetta er vissulega svolítið bragðsterkara en upphaflega, en þetta hefur eiginlega vakið of mikla lukku á mínu heimili, og mamma og systur mínar eru óþarflega duglegar í að borða þetta frá mér.

Og fyrst ég er á annað borð farin að tala um maískökur, þá vil ég sýna ykkur súpereinfalda sætabrauðið mitt 🙂

WP_20150623_18_12_23_Pro

Maískaka, sykurlaus sulta (Til dæmis þessa langa mjóa) og slatti af möndluflögum! Og já, þetta er svo gott að ég gat varla hamið mig á meðan ég tók myndina og núna fæ ég vatn í munninn af að skrifa þetta 😉

Og þar sem ég veit þið verðið sorgmædd ef þið fáið ekkert að heyra um chia-ævintýrin, þá set ég hér inn mynd af besta grautnum hingað til – sem ég vildi óska að væri fallegra grænni, en hann bragðast að minnsta kosti dásamlega 🙂 Uppskriftin af honum byggir að mestu á uppskrift @thegreatuncooking á instagram – en þó með örlitlum breytingum.

Avókadó-morgunmats-æði!

Eitt gómsætt og grænt avókadó
Ein appelsína
Hálf pera (eða banani ef þið eruð fyrir slíkt)
8 msk chiafræ (vatnslegin 😉 )

WP_20150624_09_47_57_Pro

Þessi morgunmatur var svo góður að það er eiginlega synd að hann hafi ekki fengið sína eigin bloggfærslu! Skellið avókadó, peru og appelsínu í töfrasprota og blandið eins vel og hægt er, og setjið síðan chia fræin útí. Njótið í botn!

Og já, í gær gerði ég dásamlega góðan ís úr bókinni hennar Nönnu Rögnvalds – Sætmeti án sykurs og sætuefna. Ég mæli með henni 😀

En meira hef ég ekki að segja í bili – lífið er dásamlegt – hafið það gott!

Viku lokið og þar með þriðjungi af áskoruninni!

Í kvöld verð ég búin með viku af áskoruninni – ég trúi því ekki hvað þetta er fljótt að líða! Og já, ég veit ég hef ekkert skrifað síðustu tvo daga, það einfaldlega gleymdist – ég hef ekki haft neitt merkilegt að segja og enn er lífið eins og það var 🙂

Ég trúi því varla hvað þetta er fáránlega auðvelt. Ég er komin með góða rútínu í matnum og nýjasta viðbótin er sítrónuvatn í morgunsárið. Og vissulega er ég að drekka það hér á meðan ég skrifa þetta 🙂 Hérna í haust var allt vaðandi í greinum um gæði sítrónuvatns, svo ég ákvað að prófa þetta – og hef reyndar fulla trú á þeim áhrifum sem þetta hefur. Og ef ekki, þá er þetta alla vega mjög hressandi og fullt af góðum vítamínum 🙂

WP_20150620_11_31_39_Pro

Svona lítur góðgætið út – en bragðast mun betur 😉 Þetta er einfaldlega hálf sítróna kreist í glas og fyllt upp með heitu vatni. Mjög fljótlegt, einfalt og hressandi 🙂 Og já, ég er pínu eins og Trendsetterinn núna, búin að troða fullt af Ittala kertastjökum á myndina 😉 Það blogg er algjör snilld 🙂

Síðan hefur allt annað gengið sinn vanagang, auðvitað hef ég fengið mér chia graut á morgnana – en þessi avókadó-grautur er undir áhrif frá @thegreatuncooking á instagram. Ég ætla að setja inn uppskrift af honum seinna. Og auðvitað ætti hann að vera töluvert fallegri á litinn, en það er ekki jafnauðvelt að fá mjúk avókadó hér eins og með einni ferð í Krónuna fyrir sunnan 😉

WP_20150620_15_15_20_ProOg já, jarðaber – mmmm! 🙂

Á föstudagskvöldið steikti ég steinbít (möndlumjöl í stað rasps – enginn munur!), en með honum gerði ég hrísnúðlur (sem eftir á að hyggja ég hefði viljað sleppa), niðurskorið ferskt grænmeti og ávextir og gúmmelaði ofaná – perur, döðlur og möndluflögur steiktar á pönnu.

WP_20150619_20_43_28_ProÞetta er því allt saman að ganga eins og í sögu 🙂 Það erfiðasta hingað til var hins vegar að búa til ólífupestó fyrir mömmu án þess að borða það sjálf – en ég er að vinna að því að búa til uppskrift sem ég “má” borða 😉

En annars hef ég ekkert meira að segja – nema það að ég er alvarlega að spá í því að sleppa því að borða kjöt það sem eftir er af áskoruninni, ég held það verði meira að segja ekki svo erfitt. Ég hugsa samt að ég haldi fiskinum inni – en það á eftir að koma í ljós. Ég mæli með því að þið kíkið á mataræði eftir blóðflokkum – mér finnst það alla vega mjög áhugavert 🙂

Hafið það gott 😉

P.s. Ég tók fyrsta daginn í 100 daga hugleiðsluáskorun (tilraun tvö) í morgun – ætla mér að skrifa um það á næstunni 🙂

Avókadó – nammigott! :D

Svo, nú er ég full metnaðar að verða duglegri að setja hér inn meira, bæði merkilegt og ómerkilegt, sem hugsanlega getur gagnast öðrum eða er einungis ætlað sjálfri mér 😉

Svo hér með vil ég deila með ykkur dásamlegu sælgæti (já, sælgæti!) sem ég uppgötvaði hér fyrir örfáum vikum, og vil setja hér inn sem sönnun um það að ég hafi fundið þetta upp! Eða ég veit alla vega ekki betur, þetta var algjörlega tilraunastarfsemi við matarborðið eitt kvöldið 😉

Við erum að tala um avókadó sælgæti! Ég er náttúrulega forfallinn avókadó aðdáandi, þó ég hafi þurft nokkra æfingu áður en ég fór að elska það – en þetta gerir avókadó einfaldlega himneskt!

En það er samt varla hægt að kalla þetta uppskrift, en þetta er hugmynd, ráðlegging, aðferð til að gera kvöldmatinn miklu miklu betri 😉

Við erum að tala um að stappa saman avókadó og fetaosti – svo einfalt er það 😀

Og voila!

WP_20150222_20_31_31_Pro

Í þessu tilfelli er það svo að smakk segir mun meira en myndir, og ég veit ekki alveg hvort myndin segi mikið en þessi orð 😉 Svo smakk er sögu ríkara!

Svo ef ég þyrfti á búa til uppskrift væri hún svona…

Avókadónammigumms:

– 1 avókadó (kaupi þrjú saman, vel þroskuð, í Krónunni)

– Salt og pipar (Dass yfir stappað avókadó)

– 1 msk fetaostur og olía (ég er með bláu fetakrukkurnar, kryddið og olían með eins og vill)

Svona hérna hafið þið það, gott með öllu! Fisk, kjöt, eitt og sér 😉

Og ég er ekkert að ýkja hvað mér finnst þetta gott, hef borðað mörg mörg avókadó síðan mér datt þessi snilld í hug! Við erum að tala um það að ég var búin að setja kokteilsósu á diskinn með kjúllanum þegar ég ákvað að prófa þetta, og endaði með því að vilja þetta mun frekar en kokteilsósuna 😀

Svo ég vona að þið munið elska þetta eins mikið og ég 😀

Endilega segið mér hvað ykkur finnst 😉