Draumórar um háskólalífið..

Áður en ég byrjaði í háskóla var ég með ýmsa draumóra um það hvernig háskólalífið yrði. Þar sem ég hef gríðarlegan áhuga á uppeldis- og menntunarfræði var ég nokkuð viss um að nú myndi ég einungis læra um það sem ég hefði áhuga á, það sem mér þætti spennandi og skemmtilegt. Og öll þau verkefni sem ég myndi gera væru gagnleg, áhugaverð og krefjandi. Ég væri hér með komin yfir það að læra um það sem ég hefði engan áhuga á og að vinna verkefni sem manni finnst á stundum tilgagnslaus, eins og tíðkaðist á tímum í grunn- og framhaldsskóla. Engin fleiri leiðinleg verkefni, engir fleiri tilgangslausir tímar. Og til að setja punktinn yfir i-ið myndu samnemendurnir hafa gríðarlegan áhuga á þessu námsefni einnig, sem myndi skapa áhugaverðar umræður og skemmtilegar kennslustundir!

Og mikið sem ég hafði rangt fyrir mér… Ekki misskilja, ég hef mjög mjög MJÖG mikinn áhuga á því sem ég er að læra og oftar en ekki finnst mér gaman að lesa, mæta í tíma og gera verkefnin. En inná milli eru kennslustundir, kennarar, viðfangsefni eða jafnvel heilu námskeiðin sem eru óspennandi og ég skil einfaldlega ekki hvers vegna ég þarf að læra þetta. Eitt af því sem ég held að skipti mjög miklu máli í því samhengi er áhugi kennara á því að kenna, sem stundum virðist af skornum skammti. Ef kennarinn hefur lítinn áhuga á að kenna þér eitthvað, hvernig ættir þú þá að vilja læra það??

Ég kalla þetta draumóra því þetta eru einmitt draumórar, ekkert annað. Ég hélt að það yrði meira val, ég myndi einungis gera áhugaverð og skapandi verkefni. En svo er ekki raunin, þó vissulega sé margt af þessu mjög skemmtilegt. En ég skemmti mér nú samt í skólanum flestalla daga, það koma bara dagar inná milli sem eru ekki jafn skemmtilegir, en þannig er lífið bara 😉

Svo ég segi bara, þetta verður örugglega öðruvísi í Masters-náminu.. eða þá doktornum? 😉

Virðing – hvað er það?

Í skólanum í síðustu viku var ég að horfa á upptöku af málþingi sem haldið var 9. nóvember 2007 af tilefni útgáfu bókarinnar Virðing og umhyggja: Ákall 21. aldar eftir Sigrúnu Aðalbjarnardóttur. Þar hélt Hafsteinn Karlsson, skólastjóri Salaskóla í Kópavogi, mjög áhugavert erindi sem virkilega fékk mig til að hugsa.

Erindið nefndist “Mér finnst þú svona eins og forsetinn”, en þetta sagði 6 ára nemandi við Hafstein þegar hann hitti skólastjórann sinn í fyrsta skipti. Hafsteinn hafði velt því fyrir sér í nokkurn tíma hvað nemandinn átti við, en skildi loks að þetta var virðingin. Nemandinn bar álíka mikla virðingu fyrir skólastjóranum og sjálfum forsetanum.

Virðing er eitthvað sem mér finnst skorta sárlega í íslensk samfélag. Ég er ekki að segja að hún sé ekki til staðar, en það er einfaldlega ekki nóg af henni. Hafsteinn bendir á nokkrar rannsóknir þar sem Ísland er sagt vera neðst á lista þegar rannsökuð er sú virðing sem samfélagið ber fyrir menntakerfi sínu og kennurum. Og þegar ég hugsa út í þá mörgu pistla sem birst hafa á vefnum undanfarið og umræðunni sem er í gangi get ég alveg verið sammála því, þó það sé þónokkur tími síðan þessar rannsóknir fóru fram. Ég er því hrædd um að ástandið gæti jafnvel farið versnandi. Hafsteinn nefnir að virðing fyrir kennurum og menntakerfinu stuðli að velgengni og hafi þar með áhrif á PISA kannanirnar, sem sífellt er verið að hafa áhyggjur af.

Vanvirðing gagnvart kennurum birtist einna helst í fjölmörgum pistlum og ummælum þar sem almenningur telur sig vita ýmislegt betur en kennarar og eru sífellt að segja þeim til. Ég hef alveg reynslu af þessu sjálf, enda hef ég mjög sterkar skoðanir á menntakerfinu, eftir að hafa verið þar í um 15 ár. Svo ég hef alveg fallið í þessa gryfju sjálf. Hafsteinn tekur skemmtilegt dæmi þar sem hann bendir á að aldrei myndi almenningur fara að skipta sér af því hvernig pípari, flugstjóri eða skurðlæknir vinnur vinnuna sína, en fólki finnst sjálfstætt mál að skipta sér að starfi kennara, ekki eins og þeir hafi lokið mastersgráðu í kennslufræðum! Þessi afskiptasemi er skiljanleg, enda vilja foreldrar það besta fyrir börnin sín, en hún getur þó farið út í öfgar. Því langar mig að vísa í Guðríði Arnardóttur framhaldsskólakennara, sem segir í pistli sínum:

Framhaldsskólakennarar vita einfaldlega betur en sjálfskipaðir sérfræðingar í málefnum framhaldsskólans, því það að hafa setið á skólabekk gerir menn ekkert að sérfræðingum í skólamálum, frekar en sá sem hefur farið í uppskurð verður sérfræðingur í skurðlækningum.

Og gera má ráð fyrir því að það sama gildi um kennara í leik-, grunn- og háskóla. Þó er vissulega ýmislegt sem nemendur geta kennt kennurum sínum, en þó ekki mörgum árum eftir að skólagöngu þeirra líkur.

Hafsteinn ber starf íslenskra kennara saman við þá finnsku, en Finnland þykir hafa framúrskarandi menntakerfi. Þar er menntun talin vera auðlind og mikil virðing ríkir. Þar er treyst á kennara, en engin samræmd próf eru merki um það. Aftur á móti er áhersla lögð á einstaklingsmiðun og skóla án aðgreiningar á Íslandi, sem gerir starf íslenskra kennara þar af leiðandi erfiðara og flóknari. Mér finnst þetta samt sem áður jákvætt, skólar eiga að vera án aðgreiningar, þeir eiga að bjóða alla velkomna.

Svo að ég bið, eins og Hafsteinn í ræðu sinni, um að Íslendingar hætti að tala niður til skóla og verði heldur stoltir af þeim. Tölum vel um skólana og kennarana og sýnum þeim traust og virðingu. Öðruvísi fær skólakerfið ekki að blómstra. Það er vitað að það sem fólki finnst og segir um aðra getur haft mjög mikil áhrif og brotið niður sjálfsmynd þeirra. Það sama ætti því að geta gerst með kennara, og ímynd skóla.

Og að lokum vil ég benda ykkur á þessa mynd til að sýna ykkur hversu frábært íslenska menntakerfið er í raun, það þarf bara að sýna því aðeins meira traust, virðingu og ef til vill leggja örlítið meira fjármagn í það, en það er algjörlega efni í annan pistil. Mér finnst þetta mjög áhugaverð og nauðsynleg nálgun á skólakerfið, enda skiptir hamingja barnanna jafnvel meira máli en hversu góðar einkunnir þau fá.

Topp 10

Að læra hraðlestur :)

Fljótlega eftir að hraðlestrarnámskeiðin urðu vinsæl langaði mig mikið að skella mér á eitt slíkt. En mér hefur samt alltaf fundist það kosta fullmikið, þó ég sé fullviss um að það er hverrar krónu virði 🙂

Í dag ákvað ég þess vegna að læra sjálf hraðlestur, enda býður internetið upp á flest allt sem þarf til þess. Ég vil samt taka það fram að ég er bara búin að prófa þetta í einn dag, svo ég skrifa kannski seinna um það hversu mikið gagn var að þessum æfingum, enda býst ég fastlega við því að þurfa að æfa mig töluvert oftar 🙂

Upphaflega skoðaði ég þessa síðu en ákvað síðan að það hentaði mér betur að finna myndband á youtube og fylgja því, frekar en að lesa þennan texta.

Fyrst skoðaði ég þetta myndband :

Það er að vísu ekki að finna miklar upplýsingar í þessu myndbandi, en samt sem áður tókst mér að bæta lestrarhraðann minn um 10%, bara með því að lesa ekki orðin “með munninum”, hvort sem það var upphátt eða í hljóði.

Og hvernig veit ég hversu hratt ég las? Hérna er góð vefsíða til að mæla lestrarhraðann – ekki samt gera sömu mistök og ég og mæla þetta of oft, því inná síðunni eru bara þrjár mismunandi sögur, mér hefur alla vega ekki tekist að lesa aðra texta en þessa þrjá.

En það myndband sem ég notaði til að æfa hraðlesturinn var þetta :

Eins og ég sagði áðan hef ég ekki prófað þetta alveg nógu mikið, en samkvæmt lestrarprófinu fór ég úr 24% fyrir neðan meðaltal (en ég tel að við lesum hægar á erlendum tungumálum) í 61% hraðar en meðaltal. En ég á hins vegar eftir að prófa þetta miklu meira! Ég ætla líka að skoða fleiri myndbönd, lesa meira og prófa mig áfram með hraðlesturinn.

Ég var í svolitlum vafa hvort ég ætti að æfa mig á íslenskri eða enskri bók. Ég byrjaði að prófa þetta á íslensku, þó að prófið væri á ensku, en ætla að prófa þetta með enska bók síðar.

Ég viðurkenni alveg að mér fannst þetta fyrirbæri að lesa ótrúlega hratt án þess að skilja nokkuð mjög undarlegt og líklega þarf að æfa þetta oftar til að geta nýtt sér þetta. Strákurinn í myndbandinu vill að það sé gert einu sinni í viku.

Þó ég hafi kannski ekki mikla reynslu, mæli ég samt með því að þið prófið þetta. Að lesa hraðar hentar mér einstaklega vel í háskólanámi, en það mun líka gagnast mér í að lesa aðrar bækur en námsbækurnar, enda er listinn minn yfir þær bækur sem ég ætla mér að lesa töluvert lengri en ég kemst yfir næstu árin.

Gæti verið snjallt að kenna þetta í efstu bekkjum grunnskóla 🙂

Endilega skiljið eftir athugasemdir og segið mér hvernig ykkur gekk 🙂

Kennararnir vita betur..

Mig hefur lengi langað til að stofna vefsíðu, þar sem ég get deilt mínum hugmyndum um betra menntakerfi. En ég hef samt að einhverjum ástæðum verið hrædd við að segja mínar skoðanir, ég get það alveg þegar ég tala við fólk, en finnst eins og það yrði mun endanlegra á vefsíðu – sem það auðvitað er. En ég hef samt aldrei skilið þessa hræðslu almennilega.

Núna er ég komin með kenningu og er meira að segja nokkuð sannfærð. Ég held að skólakerfið hafi gert mig svona. Ekki misskilja mig, við ráðum því auðvitað sjálf hvað við látum hafa áhrif á okkur, en okkur er enga að síður kennt frá upphafi að hlusta og hlýða kennurum, foreldrum og öllum þeim sem eldri eru. Skólakerfið byggir á því að hlusta, meðtaka upplýsingar og muna þær. Aldrei í minni grunnskólagöngu var ég hvött til að segja mínar skoðanir – og mér finnst í raun að nemendur séu ekki hvattir til þess almennt. Að tala fyrir framan fólk, segja sínar skoðanir og skipta sér að því sem skiptir mann máli – því er haldið í lágmarki. Því kennararnir vita jú betur.

Þetta finnst mér vera einn stærsti galli skólakerfisins eins og það er í dag – þó ég vilji í raun breyta því öllu eins og það leggur sig. Það er ekki verið að mennta fólk til að takast á við raunveruleg vandamál – enda held ég að það séu mjög sterk tengsl á milli þess og það hvað börn og unglingar virðast hafa lítinn áhuga á stjórnmálum. Að hafa skoðanir er talið erfitt, einhver annar getur gert það – ekki ég, það reddar einhver annar málunum. En börn og unglingar hafa svo ótrúlega mikið að segja.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig ég get mögulega náð markmiði mínu, hvort ég þurfi ekki að læra kennarann og kenna síðan í 20 ár svo einhver hlusti á mig. En ætti reynsla mín af menntakerfinu, sem nemendi, ekki að duga til þess að ég megi segja mína skoðun? Er það ekki álit nemendanna sem ætti að gilda, í það minnsta jafnt og álit kennarana. Ég efast nefnilega stundum um að ég þurfi frekari menntun til að hafa áhrif, þarf ég að læra allt um það hvernig hlutirnir eru núna til þess að hafa skoðun? Er menntun enn trygging fyrir góðri vinnu – ég er ekki svo viss um það.

Ég tel að það þurfi að opna þessa umræðu, þó hún hafi vissulega verið til staðar í mörg ár. Allir ættu að geta sagt sína skoðun svo að hægt sé að komast að sameiginlegri niðurstöðu og koma af stað breytingum.

Ef þið hafið áhuga á breytingum, eða viljið segja ykkar reynslu, megiði endilega senda mér tölvupóst á palamargret (hjá) gmail.com – eða setja inn athugasemd 🙂