Fyrsta deginum lokið og ný gerð af morgunmat :)

Nú hef ég lokið fyrsta deginum og ég sver að mér er strax farið að líða betur. Ég borðaði reyndar mjög lítið í gær, aðallega ávexti og grænmeti, en man líka ekki eftir að hafa losnað svona hratt við kvef. Í dag var fyrsta skrefið að finna nýja gerð af chia graut sem myndi passa inní þetta mataræði, en ég ætla í bili að sleppa keyptri mjólk, þó hún sé örugglega ekki mjög slæm, en þó inniheldur slatta af aukaefnum. Ég prófaði fyrir nokkrum vikum avókadóbúðing með chiafræjum, og er þessi chia grautur undir áhrifum frá honum.

Í gærkvöldi byrjaði ég á því að setja chia fræ í vatn, til að geta notað þau í morgunmatinn (svo ég þyrfti ekki að bíða!). Ég setti 4 msk af chia fræjum í krukku sem tekur u.þ.b. hálfan líter. Í morgun leit þetta svona út:

WP_20150616_12_12_52_Pro

Morgunmaturinn sem ég gerði í morgun var ofureinfaldur, ég skellti hálfu epli í töfrasprotann (flysjuðu og brytjuðu) og setti út í það þrjár matskeiðar af chia fræjunum úr krukkunni. Yfir þetta setti ég síðan kókosflögur.

WP_20150616_12_13_08_Pro

Margir myndu nú kannski segja að þetta væri svolítið eins og barnamatur, en mér finnst þetta mjög gott 😉 Ég ætla að reyna að gera þetta fjölbreyttara og reyni að setja inn uppskrift af svona morgungraut með avókadó á næstunni. Einnig er hægt að gera þetta matarmeira með haframjöli (glúteinlausu) en ég þarf að leita af því hér á Króknum.

Annars er margt annað sem ég er að reyna að bæta mig í núna, annað en hreint og beint mataræðið. Ég ætla að drekka meira vatn, og byrja alla daga núna á einni svona flösku.

WP_20150615_13_07_36_Pro

Svona flaska fæst í Fjarðakaup og Iceland, og mögulega á fleiri stöðum. Ég er ótrúlega ánægð með hana, og kostar hún bara 1500 kr. En eins og ég sagði, ein svona flaska þegar ég vakna, sem er hálfur líter. Samkvæmt einhverju appi sem ég er með í símanum á ég, miðað við hæð og þyngd, að drekka tvo lítra af vatni á dag, og náði ég því í gær.

Annað sem ég ætla að taka í gegn er svefninn, en ég stefni á að vakna í síðasta lagi kl. 9 alla daga núna, en markmiðið er samt að færa það neðar, í 7 eða 8. Ég hef alltaf átt í svolitlu stríði við svefn, þarf að sofa mikið en á samt sem áður oft erfitt með að sofna á kvöldin. Ég las um daginn að það tæki 21 dag að búa til venju, og vonandi mun það takast í þetta skiptið.

Annars er ég mjög ánægð með þessa áskorun það litla sem búið er af henni, auðvitað langar mig hrikalega mikið í allt sem ég hef ákveðið að borða ekki, einfaldlega þar sem ég “má” ekki fá það. En annars finnst mér þetta einnig vera búið að einfalda mataræðið mitt mjög. Á næstu dögum ætla ég að læra ýmislegt nýtt í eldamennsku og bakstri og deila með ykkur.

Og vitiði, mér finnst maturinn minn svo gómsætur. Hér er ávaxta- og grænmetisskálin sem ég fékk mér í morgunmat í gær með gómsætu tei 😀

WP_20150615_13_07_30_Pro

Hefur þú áhuga á að vera með? Endilega deildu þinni reynslu hér í athugasemdum 🙂

 

Mataræðisáskorun – Vilt þú vera með??

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mataræði og verið lengi að velta fyrir mér hvernig mataræði henti mér best, en ég er alla vega viss um að eins og það er í dag er ekki nógu gott fyrir mig og minn líkama.

Ég hef því ákveðið að taka 23 daga í annars konar mataræði, takmörkunarmataræði (sem mun vera íslensk þýðing á orðinu elimination diet), sem er samblanda af svo mörgu sem ég hef lesið. Hér er mjög áhugaverð grein um þetta mataræði, þar sem meðal annars er fjallað um að ekkert eitt mataræði virki fyrir alla, sem er ein aðalástæða þess að ég er að prófa þetta mataræði. Á degi 24 mun ég síðan bæta við einhverju af þessu sem ég sleppti, sem ég hef nú þegar ákveðið að verði egg, þar sem það er það sem ég efast helst um að hafi slæm áhrif á mig. Síðan mun ég bæta smám saman inn öðrum matvælum.

Þetta mataræði er einnig undir áhrifum frá Paleo, Pegan, bókinni 30 dagar og þeirra mörgu greina sem ég hef lesið um að sleppa sykuráti. Ég mun einnig reyna að tengja hér inn margar áhugaverðar greinar sem ég hef lesið um mataræði. Ég hef einnig fjárfest í nýju bókinni eftir Nönnu Rögnvalds, Sætmeti án sykurs og sætuefna, sem ég ætla að nýta mér, þó ég þurfi nú að gera einhverjar breytingar á þeim uppskriftum þar sem þær eru ekki glútenlausar. Það eru því spennandi tímar framundan með mikilli tilraunaeldamennsku 😉

Meðtalinn er dagurinn í dag og til og með 8. júlí. Ég ætla að skrifa um það hér, en ég held að það muni gera mér það auðveldara en er einnig tækifæri fyrir aðra að taka þátt ef áhugi er fyrir því.

Fyrir ykkur sem eruð að hugsa:

“Ógeðslega ömurlegt að hafa svona áskorun yfir sumartímann! Ég meina, grillveislur, pönnukökuát á pallinum, skúffukökur í útilegunni, svo við tölum ekki um allan ísinn!!”

Þá skil ég þá pælingu heilshugar, en þessi tími hentar mér langbest – mér finnst ég algjörlega ófær um að halda úti áskorun sem þessari í allri streitunni sem fylgir því hvað er mikið að gera í skólanum og ég er að fara til Svíþjóðar í haust, og ég ætla ekki að vera í einhverju svona þá. Svo þið sem viljið, getið tekið þátt í þessu.

Málið er einfaldlega það að það er aldrei skortur á afsökunum og ástæðurnar fyrir því að gera þetta ekki eru svo margfalt fleiri og auðfundnari en rök fyrir því að fara í þessar breytingar. Að breyta út af vananum og gera eitthvað nýtt, sem er flóknara og skilar ekki vellíðan samstundis (eins og ísát!) er alltaf erfitt. En ég trúi því að það verði til hins betra, og ætla mér að skilja eftir þessa daga hvaða matur hefur slæm áhrif á líkama minn.

Fyrst af öllu ætla ég (og mæli með því að þið sem viljið vera með gerið líka) að búa til lista yfir allt sem hefur verið að hrjá mig sem ég held að geti mögulega tengst mataræði, til að mynda þreyta, verkir í fótum, höfuðverkur og fleira, en einnig tel ég að það geti verið frelsandi að sleppa sykrinum, þar sem ef ég byrja í namminu vil ég sífellt meira og einfaldlega get ekki hætt!

Ég ætla líka að mæla mig, vigta og taka myndir – því þó markmiðið með þessu mataræði sé alls ekki að létta mig vil ég þó sjá hvort að þar verði einhver munur á.

Næsta mánuðinn ætla ég því að sleppa:

  • Sykur og gervisætum.
  • Öllum aukaefnum – rotvarnar-, bragð- o.fl.
  • Glúten (Hveiti, spelti o.s.frv.).
  • Mjólkurvörum.
  • Eggjum (Ég er sjálf ekki alveg sannfærð með þetta, en ætla að láta á það reyna).
  • Kartöflur.

En mér þykir þó mun betra að einbeita mér að því sem ég “má” borða – eða ætla að borða:

  • Grænmeti (og nóg af því!).
  • Ávextir.
  • Fisk (ennþá meira en ég hef verið að borða).
  • Kjöt (þó í minna mæli).
  • Hnetur og fræ.
  • Hýðishrísgrjón.
  • Glúteinlaust haframjöl.
  • Réttar fitur (að mínu mati): Kókosolía, smjör og kaldpressaðar olíur.
  • Te.
  • 100% súkkulaði (fæst í Heilsuhúsinu).

Ég á síðan örugglega eftir að þurfa að bæta við þessa lista, þar sem ég er veik heima í dag og hausinn er ekki alveg að virka eins og best væri á kosið. Veikindin gera fyrsta daginn bæði erfiðari, þar sem viljastyrkurinn er í lágmarki, en einnig meira hvetjandi, þar sem mig langar mjög að borða hreinna eftir sukk í veislum helgarinnar. En vissulega er ég nokkuð smeyk við að ýta á publish, því þá er ekki aftur snúið 😉

Ég ætla mér síðan að setja inn blogg á hverjum degi í þennan tíma, hvernig þetta gengur og jafnvel að setja inn einhverjar uppskriftir. Ef þú vilt taka þátt í þessu með mér þætti mér vænt um að fá athugasemdir um hvernig þér gengur 🙂

Heimsins einfaldasta konfekt :)

WP_20141129_20_57_07_Pro

Já, ég sver að þetta er heimsins einfaldasta konfekt 😀

Það er því varla hægt að kalla þetta uppskrift, en þessa aðferð er í raun hægt að nota til að gera hvers kyns konfekt 🙂

Konfektið á myndinni er svona:

70% súkkulaði
Hnetur, t.d. möndlur, kasjúhnetur og pekanhnetur
Ristaðar kókosflögur

Súkkulaðið er brætt í potti og á meðan er hnetum og jafnvel kókosflögum skellt í töfrasprotann eða matvinnsluvélina til að gera eins konar kurl. Síðan er hnetu- og kókoskurlinu hrært saman við súkkulaðið – og það er eins með þetta eins og rice crispies kökurnar, þú munt koma miklu meira magni af hnetum í þetta súkkulaði en þú heldur 🙂

Á myndinni hér fyrir ofan var ég svo dugleg að nenna að búa til kúlur með skeið og setja á bökunarpappír, og setti síðan ristaðar kókosflögur ofan á. Núna geri ég þetta hins vegar öðruvísi, sem er miklu fljótlegra. Ég helli einfaldlega úr pottinum á stórt skurðarbretti og dreifi úr súkkulaðigummsinu, þjappa því niður á plötuna, dreifi kókosmjöli yfir og leyfi því síðan að storkna. Þá sker ég stykkið niður í litla ferninga 🙂

Þessi síðarnefnda aðferð er miklu fljótlegri, en þar fyrir utan er stór kostur. Því þar sem ekki verður allt súkkulaðið að fínum konfektmolum, heldur verður eftir súkkulaðikókosmylsna sem er alveg dásamlegt að setja út á chia grautinn á tyllidögum, eða bara alla daga! 🙂

Það eru engin takmörk fyrir þeim fjölmörgu útgáfum sem hægt er að gera með þessu konfekti, en hér koma nokkrar hugmyndir:

Rjómasúkkulaði, hvítt súkkulaði, suðusúkkulaði, 70% súkkulaði 🙂
Möndlur, kasjúhnetur, pekanhnetur, valhnetur, pistasíur, salthnetur, kókosflögur og kókosmjöl 🙂
Döðlur, apríkósur og rúsínur.
Fyrir nammidagana er hægt að bæta í þetta lakkrískurli, karamellukurli eða smartís svo fátt eitt sé nefnt.

Gangi ykkur vel að gera konfekt, og mér þætti skemmtilegt að fá að vita hvernig til tekst 🙂

P.s. Svo er þetta líka svo ótrúlega hollt með 70% súkkulaði, hnetum, kókos og döðlum að það er hægt að borða þetta án svakalegs samviskubits 😀

 

“Pálumorgunmatur”!

Já, ég veit, þetta hljómar eins og ég hafi búið þetta til 🙂 En svo er ekki, þessi morgunmatur er einfaldlega þekktur sem pálumorgunmatur hjá dóttur vinkonu minnar, og því er ekkert vit í öðru en að hann verði kallaður slíkt hið sama hér 🙂

WP_20150308_13_59_07_ProÉg hef skoðað margar mismunandi útgáfur ef svona graut á pinterest en ég er sáttust við þessi hlutföll 🙂

Um er að ræða chia graut 🙂

1/2 bolli mjólk (ég nota kókosmjólk sem keypt er í Krónunni).
1/4 bolli haframjöl (gróft, t.d. gult sogryn eða aðrir heilir hafrar).
1 msk chia fræ (fást í flestum búðum, þó misdýr).

Þessu er öllu skellt í krukku og hrist. Þessi uppskrift passar mér fullkomlega í morgunmat, en vissulega má margfalda hana og setja þá í stærri krukku. Þetta geri ég kvöldið áður og geymi grautinn í ísskáp yfir nótt. Um morguninn bæti ég ýmis konar góðgæti út í, t.d. ávöxtum, kókosflögum og hnetum, og einnig meiri mjólk ef þörf er á.

Á tyllidögum set ég grautinn í fínu bláu skálina mína úr ikea og borða hann heima 🙂

Á myndinni þarna fyrir ofan setti ég ferskju, ristaðar kókosflögur og (já, ég er ekki að grínast) súkkulaðimylsnu sem verður afgangs þegar ég geri konfekt 🙂 Þetta er dásamlega bragðgott og mettandi morgunmatur 🙂 Þegar ég að einhverjum ástæðum næ ekki að gera chia graut í morgunmat er ég svöng allan daginn!

Það er þó ekki nauðsynlegt að gera chia grautinn kvöldinu áður, en ég leyfi honum yfirleitt að vera í ísskápnum í nokkurn tíma áður en ég borða hann.

WP_20150314_11_43_44_Pro

Hér hef ég sett jarðaber og vínber 🙂

WP_20150314_11_44_56_ProOg síðan kasjúhnetur og kókosflögur ofan á 🙂

Það er í raun ekkert takmark fyrir því hvað hægt er að setja út í chia grautinn og þá er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni 🙂 Ég hef mikið sett peru eða epli, en uppáhaldið mitt er mangó, vínber og jarðaber 😀

Chia grauturinn geymist í nokkra daga í ísskáp, en lengur ef hann er ekki með ávöxtum. Ég geri yfirleitt einn skammt í einu þar sem það tekur ekki langan tíma og þá er hann alltaf ferskur morguninn eftir 🙂

Avókadó – nammigott! :D

Svo, nú er ég full metnaðar að verða duglegri að setja hér inn meira, bæði merkilegt og ómerkilegt, sem hugsanlega getur gagnast öðrum eða er einungis ætlað sjálfri mér 😉

Svo hér með vil ég deila með ykkur dásamlegu sælgæti (já, sælgæti!) sem ég uppgötvaði hér fyrir örfáum vikum, og vil setja hér inn sem sönnun um það að ég hafi fundið þetta upp! Eða ég veit alla vega ekki betur, þetta var algjörlega tilraunastarfsemi við matarborðið eitt kvöldið 😉

Við erum að tala um avókadó sælgæti! Ég er náttúrulega forfallinn avókadó aðdáandi, þó ég hafi þurft nokkra æfingu áður en ég fór að elska það – en þetta gerir avókadó einfaldlega himneskt!

En það er samt varla hægt að kalla þetta uppskrift, en þetta er hugmynd, ráðlegging, aðferð til að gera kvöldmatinn miklu miklu betri 😉

Við erum að tala um að stappa saman avókadó og fetaosti – svo einfalt er það 😀

Og voila!

WP_20150222_20_31_31_Pro

Í þessu tilfelli er það svo að smakk segir mun meira en myndir, og ég veit ekki alveg hvort myndin segi mikið en þessi orð 😉 Svo smakk er sögu ríkara!

Svo ef ég þyrfti á búa til uppskrift væri hún svona…

Avókadónammigumms:

– 1 avókadó (kaupi þrjú saman, vel þroskuð, í Krónunni)

– Salt og pipar (Dass yfir stappað avókadó)

– 1 msk fetaostur og olía (ég er með bláu fetakrukkurnar, kryddið og olían með eins og vill)

Svona hérna hafið þið það, gott með öllu! Fisk, kjöt, eitt og sér 😉

Og ég er ekkert að ýkja hvað mér finnst þetta gott, hef borðað mörg mörg avókadó síðan mér datt þessi snilld í hug! Við erum að tala um það að ég var búin að setja kokteilsósu á diskinn með kjúllanum þegar ég ákvað að prófa þetta, og endaði með því að vilja þetta mun frekar en kokteilsósuna 😀

Svo ég vona að þið munið elska þetta eins mikið og ég 😀

Endilega segið mér hvað ykkur finnst 😉

 

 

Bántíkaka

WP_000434[1]

Nú kom loksins að því að ég fór í mína eigin tilraunastarfsemi í sykur- og hveitilausum bakstri, þó ég hafi verið inn og út úr því mataræði síðasta árið. Ég er ekki að fylgja LKL, en margar uppskriftir án hveitis- og sykurs falla þó í þann flokk.  Ég hef verið að prófa mig áfram og athuga hvort þetta mataræði hafi betri áhrif á vefjagigtina.

Í síðustu viku gerði ég sjónvarpsköku úr bókinni hennar Kristu sem tókst ágætlega – en samt þörf á annarri tilraun. Mér fannst hún eiginlega fullsæt, sem mér finnst svolítið fyndið 🙂

Núna lagðist ég í það að gera bántíköku, en ég hef áður gert uppskriftina úr Kökubók Hagkaupa, sem inniheldur nánast hálft kíló af sykri! Ég ákvað samt að gera bara einn botn, þar sem þetta var algjört tilraunaverkefni 🙂 Ég ákvað þess vegna að taka svona hundrað myndir á símann minn og skella hérna inn með uppskriftinni!

Hér er uppskriftin. Allt saman fæst þetta í krónunni og ég set inn tengil á mynd af þessum fínu sætuefnum 🙂

Botn:

4 stk eggjahvítur
50 gr Erythritol/Sukrin (í staðinn fyrir hvítan sykur)
10 dropar stevia m/ vanillu
180 gr kókosmjöl

Krem:

2 stk eggjarauður
25 gr Sukrin melis (í staðinn fyrir flórsykur)
70 gr 70% súkkulaði (einfaldlega vegna þess að ég átti ekki meira)
30 gr smjör

Aðferð:

Byrjið á því að hita ofninn á 180°C – blástur.

Stífþeytið eggjahvíturnar.

WP_000409[1]

Bætið síðan Sukrin og Steviu út í og þeytið ennþá meira!

WP_000412[1]

Þetta verður svona stífþeytt ef þið gleymið hrærivélinni í gangi á meðan þið kíkið aðeins á fésið 😉 Smakkið til, ef þið viljið hafa þetta sætara þá er um að gera að bæta meira Sukrin út í, en mér fannst þetta fínt – alls ekki jafn sætt og venjulegur marengs samt.

Því næst skal bæta kókosmjölinu úti. Ég veit að þetta virðist ótrúlega mikið, en þetta passar allt saman þegar búið er að blanda þessu saman með sleikju. Svona lúkkaði þetta þegar kókosinn var kominn saman við, hefði kannski átt að fara mér aðeins hægar svo þeytingin héldi sér betur 😉

WP_000414[1]

Skellið í 26 cm álmót/smelluform. Annars var ekkert mál að taka kökuna úr, þannig að ég hefði kannski alveg getað notað sílíkonformin mín.

WP_000415[1]

Því næst er kakan bökuð í 18 mínútur, alls ekki meira. Hún varð vel dökk hjá mér, hefði jafnvel getað bakað hana styttra.

WP_000417[1]

Leyfið botninum að kólna á meðan þið gerið kremið. Þegar formið hefur kólnað aðeins er um að gera að skella botninum á disk, svo hann verði orðinn kaldur þegar kremið er sett á.

Ég verð að viðurkenna að ég hafði mjög takmarkaða trú á að kremið myndi heppnast, þó ég væri nokkuð vongóð með botninn, en það hafðist samt sem áður 🙂

Byrjið á að setja eggjarauðurnar og Sukrin melis í hrærivélina og þeytið eins og enginn sé morgundagurinn. Jafnvel hægt að byrja á þessu á meðan kakan er ennþá í ofninum. Þeytið þar til eggjablandan er orðin stíf og falleg á litinn 🙂

WP_000428[1]

Á meðan skal bræða súkkulaðið og smjörið saman í potti á lágum hita. Ég hefði sett meira súkkulaði ef ég hefði átt það til, samkvæmt mínum útreikningum hefði átt að vera 100 grömm, en þetta kom ágætlega út.

WP_000424[1]

Síðan er súkkulaðiblöndunni og eggjablöndunni blandað varlega saman. Þetta Sukrin melis er sætara en allt, svo ef þið ætlið að nota venjulegt suðusúkkulaði má minnka magnið af því. Ég hélt að ég myndi kannski þurfa að gera kremið aðeins sætara þar sem ég notaði svona dökkt súkkulaði, en hafði mjög rangt fyrir mér.

WP_000429[1]

WP_000430[1]

Dreifið kreminu yfir botninn – og í restina ætti hún að líta svona út.

WP_000432[1]

Ef vilji er fyrir hendi er síðan lítið mál að gera kökuna á tveimur hæðum, og þá tvöfalda uppskriftina af botninum og tvö- eða jafnvel þrefalda uppskriftina af kreminu 🙂

Kakan er mjög góð ein og sér – ég er búin að prófa 😉 – en ef vilji er fyrir hendi er líklegast fínt að borða hana með rjóma. Annars á yfirsmakkarinn eftir að smakka, þar sem hann er í vinnunni.

Svo ég er bara nokkuð ánægð með þessa fyrstu tilraun, og vona að þær verði fleiri. Endilega prófið að gera þessa og látið mig vita hvernig fer og ef eitthvað er óskýrt.

Síðan finnst mér alveg greinilegt, svona þegar sykrinum og hveitinu er sleppt, að þegar ég er búin með eina sneið þá er ég bara sátt, langar ekki að borða alla kökuna eins og vanalega. Og ég er nokkuð viss um að það hefur eitthvað að gera með blóðsykurinn, en ekki að þessi kaka sé eitthvað verri! 🙂

Svo nú er bara spurninin, hvað á ég að gera við tvær eggjarauður?