Ertu nóg?

Við ætlum okkur alltaf að verða fullkomin, ekkert má út af bregða. Við verðum ekki ánægð fyrr en fullkomunun er náð og jafnvel ekki fyrr en þá.

Útlitsdýrkun er komin á hátt stig, og sama hversu sterkur maður telur sig vera, þá hefur þetta alltaf áhrif, maður vill alltaf verða betri, verða fullkominn.

Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum hversu mikinn áhuga ég hef á jóga. Jóga snýst um mjög margt, en eitt af því sem hefur verið stór þáttur fyrir mig er aukin líkamsvirðing, loksins er ég farin að elska líkamann minn, ég er orðin sterkari og liðugari, farin að stjórna honum almennilega. Í mörg ár hef ég óskað þess að ég hefði aðra fætur, væri verkjalaus, en auðvitað er það ekki að hjálpa. Það er ekki hægt að laga hluti með því að segja hversu ömurlegir þeir eru, þetta snýst um ást og virðingu.

Og því vil ég deila með ykkur þessu myndbandi, sem ég tók fyrir nokkru síðan og er mjög stolt af. Þarna er ég í fyrsta skipti að ná að halda krákunni, í örfáar sekúndur. Þetta var mikið stökk fyrir mig, ég er mjög stolt af þessu augnabliki og það gaf mér kraft til að halda áfram.

Auðvitað eru margar margar ástæður fyrir að setja þetta ekki inn. Ég er alveg klárlega ekki nógu sólbrún (og verð það örugglega aldrei – enda er það ekki markmiðið!), ég er ekki nógu sterk (ég næ BARA að halda krákunni í nokkrar sekúndur), ég er ekki nógu mjó (af hverju skiptir það öllu máli?), ég er ekki nóg, ekki nóg, ekki nóg… Ég er ekki fullkomin!

Eða það er alla vega það sem maður segir sjálfum sér. En ég er hætt. Ég er nóg. Ég er nógu sterk og mun verða sterkari. Elskaðu líkamann þinn og þú munt fá ástina margfalt til baka! Þú ert nóg!

Eins og sést á þessu myndbandi, ekki segja neitt við sjálfan þig sem þú myndir ekki segja við aðra!

Mér finnst þetta lag og myndband segja meira en þúsund orð 🙂

Einnig vil ég benda á þessar þrjár greinar, sem hafa vakið mig til umhugsunar og geta hjálpað í leiðinni að aukinni virðingu og ást á eigin líkama.

It’s Time to Take Back Our Lives: How the Quest for Perfection Threatens Us All eftir Dianne Bondy

Healing Your Body From the Inside Out eftir Kaisa Kapanen

5 Steps to Bust Self-Sabotage and Stop Blocking Your Opportunities eftir Sadie Nardini

Síðan vil ég enda þetta á þessu frábæra lagi, sem segir allt sem segja þarf!

Því við erum öll fullkomin! Á okkar eigin fullkomna hátt! 😀

P.s. og auðvitað eiga þessi skilaboð jafnt við bæði karla og konur! 🙂

Útijóga :)

Eftir að hafa klárað 30 daga áskorunina gerðu ég þau mistök að halda að ég vildi fá smá hvíld eftir að hafa gert jóga á hverjum degi í mánuð. Ég er að segja ykkur það, það voru stór mistök. Mér líður svo miklu betur ef ég geri jóga á hverjum degi, og þó svo að það komi tímar sem ég nenni ekki að gera jóga, þá er svo miklu miklu erfiðara að hætta að gera jóga og að byrja síðan aftur, en einfaldlega að halda áfram þegar löngunin til að hætta kemur. Þá er einfaldlega hægt að gera auðveldara og styttra jóga þegar þannig liggur á manni.

Í páskafríinu var ég enn í basli við að byrja aftur, gerði jóga stundum og stundum, en það var ekki orðið að rútínu. Laugardaginn fyrir páska fæ ég síðan sent nýtt myndband frá Erin Motz (það er skvísan sem er með 30 daga áskorunina), þetta hér:

Þetta myndband finnst mér algjör snilld – og ég vona að ég fái fleiri myndbönd frá henni þar sem engin þörf er á að nota jógamottu eða önnur áhöld, semsagt jóga sem hægt er að gera hvar og hvenær sem er 😉 Inná youtube eru til fleiri myndbönd undir leitarorðunum “Yoga without a mat” en ég hef ekki prófað nein þeirra.

Ég ákvað að prófa þetta myndband úti í 4°C hita í Öxarfirði, svolítið öðruvísi en þessi sól sem hún sýnir í myndbandinu í Flórída. Ég klæddi mig því í útiföt og hélt á símanum og vonaði að netið myndi virka svo ég gæti spilað myndbandið úti. Það gekk upp, en ég er  í raun ekki búin að horfa á þetta myndband, heldur bara hlusta á það og fylgja fyrirmælunum, svo það var gott að ég var orðin vön því að hlusta á hana leiðbeina mér um jóga 🙂

Ég set hér inn nokkrar misgóðar myndir – eina af mér að gera jóga og tvær aðrar af því hvernig staðan var þennan daginn 🙂

WP_000500

Með Tungufjallið í bakgrunni 🙂 Útijógað var alveg dásamlegt, að gera jóga með lungun full af fersku (og í þessu tilfelli köldu) lofti er yndislegt. Mér finnst ég fá mun meira út úr æfingunni en ef ég geri hana innandyra, en nákvæmlega hvað það er sem veldur þessu get ég ekki útskýrt.

WP_000502 WP_000503

Svo að niðurstaða mín er sú að það að gera jóga úti er alveg dásamlegt og gerir æfinguna mun betri – þó aðstæður eða hitastig sé ekki með besta móti. Í byrjun maí gerði ég aftur jóga úti, á pallinum heima hjá mér á Sauðárkróki í sólskininu, sem var ennþá betra en þetta. Þá var nógu hlýtt til að vera í íþróttafötunum, ég gat tekið jógamottuna með mér út og fengið orku frá sólinni í leiðinni. Ég held að ég hafi verið tæpan klukkutíma úti í jóga, sem undirstrikar hversu þægilegt það var.

Ég mæli því með útijóga fyrir alla – og myndband eins og þetta sem ég setti inn er góður grunnur þegar jóga er gert án mottu við ýmsar aðstæður. Það er klárt mál að á mínu framtíðarheimili verður góð aðstaða til að gera jóga utandyra, þetta er einfaldlega of gott. Þetta hefur einnig orðið til þess að ég þarf helst að hafa allt opið út þegar ég geri jóga inni, mér finnst skorta allt súrefni innandyra 😉

Jóga – meiri snilldin!

Núna er rúmt ár síðan ég fór að prófa mig áfram með jóga. Fyrst um sinn notaði ég þetta myndband, reyndi að gera jóga einu sinni á dag, og fann að mér leið betur. Já, og fyrir þá sem ekki vita það, þá er ég með vefjagigt, sem lýsir sér í stanslausum verkjum, nánast að ástæðulausu, og þar af leiðandi lítilli löngun til að hreyfa sig. En málið er einfaldlega að með hreyfingunni líður manni betur.

Síðan prófaði ég hot yoga í World Class á Seltjarnarnesi (Sem er geggjað! bara fulllangt frá Hafnarfirði), í Sporthúsinu (Sem ég var ekki jafnánægð með) og í Hress í Hafnarfirði (Sem er einhversstaðar mitt á milli). Málið er, að fyrir mér er jóga ekki bara líkamleg æfing, þetta er líka andlegt – og á Seltjarnarnesi tókst fullkomlega að blanda þessu saman. Í Hress hef ég einnig farið í venjulegt jóga og warm, sem er ekki í alveg jafn miklum hita. Ég vil vekja athygli á því að ég ætlaði sko ALDREI í hot yoga, þar sem mér líkar illa við mikinn hita, en síðan var það bara dásamlegt og ég fer núna reglulega í heita tíma.

Síðan fór ég að nota þetta myndband sem er alveg dásamlegt, ekkert allt of erfitt og í raun mjög slakandi – 20 mínútur.

En núna er ég búin að finna það sem hentar mér best, það er “30-day yoga challenge”. Það besta er að ég fæ tölvupóst á hverjum degi með myndbandi sem er 10-20 mín, svo það er ekki hægt að nota neinar afsakanir eins og “það er svo langt í ræktina”, “ég hef ekki tíma”, “ég gleymdi þessu” og svo framvegis 🙂 Svo að ég mæli með því að allir skrái sig í þessa áskorun, ég er búin með sjö daga núna og ég finn alveg hvernig mér líður betur.

Í dag byrjaði ég að æfa “Crow pose” eða einfaldlega Krákuna – sem lítur svona út:

Svo núna er bara að æfa sig á hverjum degi þangað til ég næ þessu – en á líklegast eftir að detta nokkrum sinnum á fésið í millitíðinni!

Og einnig langar mig að benda ykkur á þetta myndband, sem er algjörlega í fyrsta sæti hjá mér – og menn ættu að horfa á það svona einu sinni í viku!

P.s. Síðan þarf ég líka að segja ykkur frá Foam flex 😉