Þetta virkar! Búin að bæta við eggjum og osti :)

Já, ég get hér með staðfest að svona “takmörkunar”mataræði virkar! Það er líka svo miklu miklu auðveldara en ég gat nokkurn tíman ímyndað mér og tíminn flaug á ógnarhraða 😉

Í gærkvöldi elduðum við steiktan fisk, sæta kartöflustöppu og lauk 🙂 Í það notuðum við egg og ég var því að bæta þeim við. Ég einfaldlega nennti ekki að standa upp til að sækja símann og taka mynd í gær, svo þið verðið bara að láta ímyndunaraflið ráða för 😉

Í hádeginu í dag fékk ég mér síðan salat og skar út á það tvö soðin egg. Þess má geta að fyrir daginn í dag hef ég aldrei verið hrifin af soðnum eggjum, svo eggjaþörfin hefur verið farin að gera vart við sig!

Eggin höfðu engin slæm áhrif á mig – enda bjóst ég ekki við því. Ég er hrifin af eggjum og þau eru eiginlega nauðsynleg í svo margs konar bakstur þegar búið er að taka út hveiti og sykur að ég vildi helst halda þeim inni. Ég er því mjög ánægð með árangurinn, eggin eru komin inn og mér líst vel á þau 😀 Þau eru líka góður og fljótlegur próteingjafi – góð viðbót við mataræðið eins og það er 🙂

Vegna þess hversu sannfærð ég var um ágæti eggjanna ákvað ég að flýta aðeins fyrir mér og bæta einnig við osti í dag. Ég gerði avókadónammigumms (þ.e. avókadó og fetaostur stappað saman, bráðnar í munni!) með kjúklingnum í kvöldmatinn 🙂 Hér kemur svo loksins inn mynd af kvöldmatnum 🙂

WP_20150707_19_09_18_Pro

Þetta var heilsteiktur kjúklingur, grænmetisgúrmé (laukur, sveppir, brokkolí, blómkál og hakkaðar möndlur steikt upp úr smjöri og kryddað helling), avókadógums og niðurskorin paprika, gúrka og gulrót 😉

WP_20150707_19_12_04_Pro

Síðan voru líka kartöflur með, en í þetta sinn gerði ég ekki sér sætar fyrir mig. Ég borðaði samt bara eina og fannst það yfirdrifið nóg. Ég hef haldið þeim á takmörkunarlista, fengið mér örlítið kannski þrisvar undanfarnar vikur. Enda snerist það ekki um að ég þoldi þær illa, heldur bara að það væri mun næringarríkara að fá sér annars konar meðlæti. En ég hins vegar finn að þessar kartöflur (ofnsteiktar, dásamlegar!) eru nátengdar dópamín stöðvunum í heilanum mínum! Mikið sem mér finnst þær góðar, ég nýt þess í botn að borða þær 😉 Þær falla svo klárlega í flokkinn “comfort foods” 😉

En já, ég bætti semsagt osti við kvöldmatinn. Avókadógumsið var dásamlega gott og ég notaði það í raun sem sósu með kjúllanum. En það sem gerðist næst staðfestir fyrir mér að þetta mataræði virkar! Ég fann um leið og ég var búin að borða að osturinn var ekki að fara vel í mig, ég fékk höfuðverk, magaverk og varð hálf óglatt. Ég hef alveg fundið fyrir vægum einkennum af mjólkurvörum, þá aðallega súrmjólk sem ég hætti að borða fyrir mörgum árum og leið þá strax betur. En svona hefur mér ekki áður liðið af osti – og ég trúi því að öll meðvitund mín um það hvernig líkaminn minn þolir matinn hefur aukist gríðarlega. Það er því greinilegt að ostur og aðrar mjólkurvörur verða settar á takmörkunarlista til frambúðar! En ég ætla samt ekki að vera með einhver óraunhæf plön, ég veit vel að ég mun fá mér dásamlegar rjómalagaðar sveppasósur og rjómaís af og til, en þetta gerir mig samt mun meðvitaðari um ástandið og ég mun reyna betur að sleppa mjólkurvörum en ég hef gert hingað til.

En þrátt fyrir vanlíðanina sem þessi ostur olli (þó hann hafi verið svooo góður meðan ég borðaði hann!) þá er ég svo ánægð með árangurinn, svo ánægð með líkamann minn að senda svona sterk skilaboð og almennt svo hrikalega ánægð með þessa áskorun og hversu vel hún hefur gengið 😀

Næst á dagskrá er að bæta inn hveiti á morgun eða fimmtudaginn og sjá hvernig það verður. Ég er síðan að fara í veislu á laugardaginn og mun þar borða það sem verður í boði þar, það verður ágætis tilraun 😉

Takk fyrir lesturinn! Yfir og út 😉

2 thoughts on “Þetta virkar! Búin að bæta við eggjum og osti :)

  1. Gaman og fróðlegt að lesa síðuna þín. Ætla að prófa nokkrar uppskriftir, hlakka mest til að smakka morgunmatinn en á ekki appelsínu svo kannski verður það bara hádegismatur hjá mér á morgun. Ætla svo að reyna að koma avókadógumsinu ofan í unglingana ☺.

    • Snilldin ein 🙂 Já, þessi morgunmatur minn hefur sko alveg verið borðaður kl. 15 hjá mér 🙂 Núna hef ég ekki fengið hann í marga daga þar sem avókadóið birtist ekki í ísskápnum þó ég fari ekki í búðina 😉 En avókadógumsið er klárlega eitthvað ofaní unglingana 😀 Í raun eitthvað ofan í alla þá sem borða ekki avókadó held ég bara 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *