Og hvað lærði ég svo af þessi mataræðisáskorun?

Já, það hefur verið meira en nóg að gera hjá mér undanfarna viku og því hef ég ekkert skrifað, en hins vegar haft nægan tíma í að hugsa um hvað ég ætlaði að skrifa 🙂

Í síðustu bætti ég síðan inn hveiti og sykri. Ég veit alla vega núna að ég er ekki með neitt óþol fyrir glúteni, en hins vegar er hveitið náttúrulega mun þyngra í maga og mér leið eins og ég hefði borðað yfir mig þó ég hefði ekki borðað mikið brauð. Mér grunar líka að hveitið hafi aðeins slæm áhrif á liðina mína, en ég er ekki alveg viss um það. Með sykurinn vissi ég alveg að hann hefði slæm áhrif á mig og svona yfirleitt ef ég borða sykur fæ ég höfuðverk. Því er alveg klárt mál að mjólkurvörur, sykur og hveiti fer allt á takmörkunarlista og svona þegar ég er komin með mitt eigið heimili verður þetta ekki til 😉

Svo hvað lærði ég á þessu mataræði?

Þetta mataræði er ótrúlega einfalt, það er varla hægt að kalla þetta áskorun!

Þetta mataræði, sem ég veit ekki hvort ég eigi að kalla paleo eða hvað, er svo miklu miklu miklu miklu auðveldara en ég bjóst við og sannfærir mig algjörlega um það að ég get haldið mig við þetta mataræði til frambúðar! Ég get því varla kallað þetta áskorun eftir allt saman, þetta var svo einfalt 😀 Og eftir að ég bæti eggjunum við þá er ennþá meira sem ég get búið til sem kemur í staðinn fyrir ýmist góðgæti fullt af sykri.

Þessar rúmu þrjár vikur leið mér betur en mér hefur liðið lengi

Þetta mataræði er svo klárlega eitthvað fyrir mig, ég var orkumeiri, miklu hressari og leið almennt séð miklu betur. Ég var líka bara svo stolt af því að geta þetta, hvað þetta var einfalt og þægilegt. Í þessu mataræði borðaði ég líka bara næringarríkan mat, en ekki tómar hitaeiningar eins og sykur. Ég hafði þess vegna alltaf næga orku, auk þess sem blóðsykurinn hélt sér fullkomlega stöðugum, ég var yfirleitt södd og sæl, en samt aldrei svona pakksödd eins og ég hafði oft verið áður.

Ég hætti að narta á milli mála í allskonar sætmeti

Já, augljóslega gat ég ekki verið að maula súkkulaðikex eða eitthvað álíka milli mála, en ég var heldur ekki að maula neitt annað. Matartímarnir mínir urðu mun reglulegri, ég fékk mér þennan dásamlega chia graut alla morgna sem var góð undirstaða undir daginn og hafði jafna orku út daginn.

Ég er ekki manneskja sem getur bara fengið sér einn súkkulaðibita

Fyrir viku síðan fór ég í brúðkaup og síðan þá hef ég í raun ekki haft neinar reglur um mataræðið mitt. Ég hef svolítið bara borðað það sem mig langar í og eitt af því hefur verið nammi eða kökur. Og ég er einfaldlega bara alveg ófær um það að fá mér bara eina kökusneið eða nokkra súkkulaðibita. Klára af fatinu eða pokanum og sleikja það svo að innan, það dugar ekkert minna! Það má ekkert af þessu sykurjukki fara til spillis og það þarf að klárast á núll einni!

Sykur-, glúten- og mjólkurlaust mataræði hefur góð áhrif á samband mitt við mat

Já, þetta er ég búin að tala svolítið um. Hér áður fyrr var ég bara svolítið að troða í mig, ekkert að hugsa um hvað ég var að borða og oft svo mikið að drífa mig að ég naut þess ekkert að borða. Þessar rúmu þrjár vikur voru allt öðruvísi. Ég var iðulega síðust frá matarborðinu og ef ég var ein settist ég inn í stofu og naut þess að borða hvern einasta bita. Ég vissulega náði þessu ekki alltaf, en þegar ég gerði það leið mér mun betur. Þá var ég líka virkilega södd, en ekki bara búin að koma einhverju ofan í maga á ofurhraða. Ég þarf samt sem áður að æfa mig mun meira og aðallega að muna eftir því að borða með hugann við verkið, því annars líður mér stundum að máltíð lokinni eins og ég hafi einfaldlega ekkert borðað, og vil því fara að borða meira.

Mmmmm – matur er svo góður!!

Á þessum tíma lærði ég virkilega að elska mat: Paprika, gúrka, avókadó, sveppir, brokkolí, nektarínur… og svo mætti lengi telja. Allt saman svo næringarríkur og bragðgóður matur, sem týnist svolítið inná milli eða gleymist einfaldlega þegar það er líka í boði pasta, kökur og fleira. Eftir þennan tíma þykir mér nauðsynlegt að hafa stóran hluta af grænmeti í hverri máltíð – þetta er allt saman svo gott 😀

Einfaldleiki er málið!

Ég sver að það er svo miklu miklu auðveldara að elda þegar úrvalið er orðið svona takmarkað. Ég var oft lengi að koma mér í það að fá mér að borða, langaði ekki í neitt og þar fram eftir götunum. Ég lenti auðvitað í þannig augnablikum, sá ávani hverfur ekki á einni nóttu, en þegar úrvalið var orðið svona lítið lærði ég virkilega að njóta þess sem í boði var og var töluvert sáttari með útkomuna 😀

Já, ég gæti líklegast sagt miklu miklu meira um þetta mataræði, en þið verðið þá bara að kíkja í heimsókn og spjalla eða skella inn spurningu hér fyrir neðan ef þið hafið einhverjar 😀

Svo hvað er þá næst?

Núna hef ég verið í viku án þess að vera með neinar reglur þannig og mér líður bara alls ekki jafn vel. Ég er orðin orkuminni og er sífellt að troða í mig einhverju súkkulaði hér og þar, í stað þess að borða alvöru máltíðir eins og ég gerði áður. Og það sem kom mér eiginlega helst á óvart er hversu fljótt hugsunin kom aftur um það að ég væri að missa af einhverju ef ég hætti aftur að borða þetta allt saman, eins og þetta sé eitthvað betra fyrir mig.

Núna og áfram ætla ég að hafa sykur, glúten og mjólkurvörur á takmörkunarlista. En umfram allt að borða það sem er mikil næring í, því kanilsnúður eða grjónagrautur er svo sannarlega ekki að skila mér þeirri orku sem ég þarf á að halda. En hins vegar eru samlokur á Lemon eða Serrano quasadilla svo sannarlega að skila mér orkunni sem ég þarf (Já, ég sakna þess svolítið hérna fyrir norðan…) og því er ekkert að því að ég borði það þó það sé vissulega glúten í því.

Fram til áramóta verður mataræðið því nokkuð í lausu lofti, ég mun reyna að stjórna því þannig að mér líði sem best og halda áfram að tilraunast með það. Ég er alveg hætt að baka sykurkökur, enda finnst mér hinar bara miklu betri, og mig langar ekki einu sinni í pasta! Þetta mataræði hefur svo sannarlega breytt sín minni og ég veit það fyrir víst að þegar ég kem aftur til Íslands eftir áramót mun ég halda þessu áfram, þar sem ég get svo auðveldlega stjórnað þessu öllu sjálf.

Hvernig haustið verður mun svo bara koma í ljós 🙂 Ég ætla bara að vera mjög slök með það og vera ekki að reyna að halda mig við eitthvað mataræði þegar það er svo margt nýtt til að prófa 🙂 Ég held líka að það að virkilega njóta þess sem maður er að borða og gefa sér tíma gefi líkamanum þau skilaboð að þarna sé góð næring, sé jafnvel mikilvægast af þessu öllu. Það er því markmiðið fyrir haustið, að einbeita mér að þessu.

Ég held nefnilega að eftir þessar þrjár vikur verði mataræðið mitt aldrei eins, og ég er mjög ánægð með það! Ég var einmitt að borða þetta góðgæti á meðan ég skrifaði þetta:

WP_20150718_15_24_41_Pro

Núna þegar ég er byrjuð að vinna alla daga annars staðar en heima hjá mér breytist mataræðið náttúrulega aðeins. Suma morgna (aðallega þar sem ég hef ekki nennt í búðina að kaupa avókadó) hef ég skellt chiafræjunum mínum (sem legið hafa í bleyti) í glas með smá ávaxtasafa og skellt í mig. Það er vissulega ekki jafn mettandi og grauturinn, en ég þá alla vega að fá chia skammtinn minn 🙂

WP_20150718_09_41_49_Pro

Og já ég veit, þetta lítur nú ekkert rosalega vel út, en samt…

Og já, ég hef líka nota Froosh smoothie og skorið nektarínubita útí, það var mjög fínt og var nær því að uppfylla það sama og grauturinn 😉

Ég hef síðan pantað mér mat í vinnunni og fengið þá ávexti og grænmeti í staðinn fyrir súpu, brauð og kartöflur. Þennan dásemdarfisk fékk ég í síðustu viku:

WP_20150710_12_06_09_Pro

 

Svo þá held ég sé búin að segja allt sem mig langar að sejga að svo stöddu 😀 Mig langar mikið að heyra frá ykkur, hvernig ykkur fannst að fylgjast með þessu og hvaða áhrif það hafði á ykkar eigið mataræði 😀

Svo núna fer ég kannski að skrifa um eitthvað annað en mat, svona til tilbreytingar 😀

3 thoughts on “Og hvað lærði ég svo af þessi mataræðisáskorun?

  1. Þú ert með flottar greinar. Það lítur vel út .. Það kemur í ljós að það sem ég hef verið að leita að hingað til er í þessu blaði, ég er mjög ánægður með að finna nokkrar greinar á þessu bloggi, ég hef áhuga á setningu þinni hér að ofan, mjög skoðanamyndun að mínu mati, af hverju? vegna þess að þú skrifaðir það á tungumáli sem auðvelt er að skilja.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *