Gleðilegan þjóðhátíðardag! Þriðja deginum hér með lokið :)

Gleðilega hátíð kæru lesendur 😉 Í dag er 17. júní, sem hefur líklega ekki farið framhjá mörgum 🙂 Því fylgir auðvitað sukk og svínarí, auk þess sem ég fór í eitt barnaafmæli í dag. Það var því nóg um freistingarnar í dag, en auðvitað stend ég við mín orð 🙂

Svo, hvað er ég þá að borða?

Í kvöldmatinn í gær gerði ég mér kjötbollur, hrísnúðlur og steikta sveppi – en hrísnúðlurnar eru nauðsynlegar fyrir pastafíkilinn mig 🙂

Í morgun borðaði ég síðan morgunmat í svipuðum dúr og í gær, í þetta sinn hálft avókadó og hálf pera mixuð með chia fræjum og glútenlausu haframjöli.

WP_20150617_13_10_07_Pro

Í kvöldmatinn borðaði ég síðan aðeins hollari útgáfu af pylsupasta 🙂

WP_20150617_20_07_28_Pro

Í það fóru hrísnúðlur, pylsur (100% pylsur keyptar í Ísbúðinni Laugalæk), brokkolí (því mottó-ið mitt er brokkolí í öll mál!), paprika og nýjasta æðið, möndluflögur með í steikinguna. Síðan til að bæta aðeins upp fyrir kökuátið setti ég nokkra döðlubita með, sem gera þetta mun sætara. Og auðvitað gúrka, sem er nýjasta uppáhaldið mitt 🙂

Um miðjan dag borðaði ég svipaða steikingu af grænmeti.

Ég reyni að drekka te á hverjum degi (Mæli með Pukka detox og lakkrísteinu frá Yogi Tea). Ég hef einnig náð því undanfarna daga að drekka tvo lítra af vatni á dag, enda er flotta flaskan mín með teljara í lokinu sem hjálpar mér að muna hvað ég hef drukkið mikið. Auk þess er ég vandræðalega tengd henni og fer ekki út úr húsi án hennar, sem verður til þess að vatnsdrykkjan gleymist ekki.

Ég hef tekið eftir því að ég borða mun minna núna, en ég er ekkert endilega svöng, bara ekki sífellt södd eins og ég var. Núna er ekki jafn einfalt að maula á einhverju millimáli endalaust, auk þess sem súkkulaðikexið hefur fastari tök á sykurpúkanum en gulræturnar.

Ég er þar af leiðandi mjög ánægð með það sem af er orðið, þetta er ekki jafn erfitt og ég bjóst við, og ég trúi því að þetta sé að hafa góð áhrif á mig. Ég er líka nokkuð viss um að ég mun seint sjá eftir því að hafa ekki borðað rjómakökuna í veislunni (þó ég fái vissulega vatn í munninn við að skrifa þetta), því það koma alltaf aðrar rjómakökur! 😉 Og þá er líka hægt að gera þær í hollari kantinum, eftir að þessum tæpa mánuði er lokið.

Já, ég er líklega ekki búin að tala sérlega mikið um tilgang þessa mataræðis. Tilgangurinn með því, frá mínu sjónarhorni, er að greina hvaða matur hefur slæm áhrif á mig og hvaða matur hefur ekki slæm áhrif, þó hann sé ef til vill ekki í hollari kantinum. Ef þið hafið lesið greinina sem ég tengdi við hérna fyrsta daginn, þá er talað um það að það taki líkamann um 21-3 daga að “núllstilla” sig. Eftir það bæti ég smám saman inn einnig tegund í einu og finn næstu tvo sólarhringa hvaða áhrif sú fæða hefur á mig. Með þessu vonast ég til að geta greint frekar hvaða matur hefur slæm áhrif á mig og hvað ég eigi að forðast í mataræðinu frekar en annað.

En svo ég komi nú að öðru, þá er ég að reyna að nýta þessa áskorun til að bæta mun meira en einfaldlega hvað ég er að borða, en eitt af því er að borða mindfully – með hugann við verkið. Ég er sjálf orðin mjög gjörn á það að vilja helst borða fyrir framan sjónvarpið, eða lesa eitthvað í símanum á meðan ég borða – en með þeim hætti er ég vissulega ekki að veita því hvað ég borða eða hvernig mér líður meðan ég borða athygli. Ég er því að reyna að “lækna” samband mitt við mat á þessu tímabili, en ég er einnig alveg viss um að ég stunda nokkuð mikið “tilfinningaát” – að borða af öðrum ástæðum en svengd. Ein regla sem ég er að taka upp er að borða aðeins þegar ég sit, en með þeim hætti er ég minna að nasla eða borða í flýti – en það hefur reyndar minnkað svo mikið undanfarið að það er ekki jafnmikil þörf fyrir þá reglu nú en áður.

En nú er nóg komið af þvaðri – takk fyrir að nenna að lesa þetta 😉 En vissulega er ég að mestu að skrifa þetta fyrir sjálfa mig 🙂

Yfir og út! 😉

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *