Fimmtudagsfjör og ólífupestó! :D

Jájá, nú hef ég ekkert skrifað síðan á sunnudaginn, það hefur verið nóg að gera og ég verið fjarverandi tölvu, alla vega í blogghugleiðingum. Mataræðið hefur gengið mjög vel núna undanfarið – en ég held ég sé ekki sammála því að fyrstu dagarnir hafa verið erfiðastir. Það er frekar núna, þegar mér er farið að líða betur, sem ég vil fara að fá mér eitthvað sem er ekki á lista. Núna er ég að klára ellefta daginn – svo ég er rétt hálfnuð 🙂

Það helsta sem er að frétta er að ég hætti við að hætta við – og ákvað að halda kjötinu inni, annað er einfaldlega of mikið. En ég er samt alveg viss um það að einhvern daginn mun ég prófa að vera grænmetisæta – sá tími mun koma 😉

Aðalgleðifréttirnar eru þó þær að ég aðlagaði uppskriftina af ólífupestóinu sem mamma mín hefur oft gert – af GulurRauðurGrænn&Salt 🙂 Þetta pestó er dásemdin ein og þegar ég var að búa svona til fyrir mömmu á föstudaginn átti ég virkilega erfitt með mig. Síðan lenti ég í vandræðum, þar sem hér á Króknum er hvorki hægt að fá pestó né sólþurrkaða tómata án allskyns aukaefna. Mamma leysti málið og keypti sólþurrkaða tómata frá Sollu fyrir mig í Bónus.

Svo hér kemur það!

ÓLÍFUPESTÓ!

Fyrst þarf að búa til pestó úr sólþurrkuðum tómötum – ég studdist við þessa uppskrift, en annars var þetta eiginlega of mikið dass til að geta kallast uppskrift.

Rautt pestó með sólþurrkuðum tómötum

1 poki sólþurrkaðir tómatar
1/2 bolli extra virgin olive oil
1 bolli ferskt basil
1/2 bolli kasjúhnetur
2 hvítlauksrif
Dass rauðar piparflögur
1 tsk sjávarsalt

Ég tróð tómötunum ofaní olínu og leyfði þeim að liggja þar í smástund á meðan ég undirbjó rest. Það er örugglega ekki verra að hafa þá lengur. Síðan skellti ég þessi öllu í töfrasprotann og mixaði og mixaði þar til þetta leit út eins og pestó 😉

Ólífupestó

Rautt pestó (hér fyrir ofan 😉 )
1 1/2 bolli döðlur
1 1/2 bolli kasjúhnetur
1 1/2 bolli svartar ólífur

Þar sem töfrasprotinn þoldi ekki allt gumsið, mixaði ég döðlur og kasjúhnetur sér, síðan ólífur, og hrærði þessu öllu saman við pestóið með sleif.

Og svona leit góðgætið út:

WP_20150623_17_39_28_Pro

Og þetta bragðast mun betur en það lítur út! Ég skellti þessu á maísköku (Sollu eru bestar!). Ég var mjög svo sátt með útkomuna, þetta er vissulega svolítið bragðsterkara en upphaflega, en þetta hefur eiginlega vakið of mikla lukku á mínu heimili, og mamma og systur mínar eru óþarflega duglegar í að borða þetta frá mér.

Og fyrst ég er á annað borð farin að tala um maískökur, þá vil ég sýna ykkur súpereinfalda sætabrauðið mitt 🙂

WP_20150623_18_12_23_Pro

Maískaka, sykurlaus sulta (Til dæmis þessa langa mjóa) og slatti af möndluflögum! Og já, þetta er svo gott að ég gat varla hamið mig á meðan ég tók myndina og núna fæ ég vatn í munninn af að skrifa þetta 😉

Og þar sem ég veit þið verðið sorgmædd ef þið fáið ekkert að heyra um chia-ævintýrin, þá set ég hér inn mynd af besta grautnum hingað til – sem ég vildi óska að væri fallegra grænni, en hann bragðast að minnsta kosti dásamlega 🙂 Uppskriftin af honum byggir að mestu á uppskrift @thegreatuncooking á instagram – en þó með örlitlum breytingum.

Avókadó-morgunmats-æði!

Eitt gómsætt og grænt avókadó
Ein appelsína
Hálf pera (eða banani ef þið eruð fyrir slíkt)
8 msk chiafræ (vatnslegin 😉 )

WP_20150624_09_47_57_Pro

Þessi morgunmatur var svo góður að það er eiginlega synd að hann hafi ekki fengið sína eigin bloggfærslu! Skellið avókadó, peru og appelsínu í töfrasprota og blandið eins vel og hægt er, og setjið síðan chia fræin útí. Njótið í botn!

Og já, í gær gerði ég dásamlega góðan ís úr bókinni hennar Nönnu Rögnvalds – Sætmeti án sykurs og sætuefna. Ég mæli með henni 😀

En meira hef ég ekki að segja í bili – lífið er dásamlegt – hafið það gott!

One thought on “Fimmtudagsfjör og ólífupestó! :D

  1. Pingback: Sætkartöflurisotto, súkkulaðismjör og ís í morgunmat! | Brostu :)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *