Ungbarnateppi með Baldursbrám

PALAMARGRET - WIN_20140518_180245

Þannig er mál með vexti að ég er nokkuð viss um að það sem gerir mig hamingjusama, hlýtur að gera aðra hamingjusama (sem er náttúrulega ekki rétt), og ég hef þess vegna verið að reyna að kenna öllum í kringum mig að hekla, hvatt þá til að gera jóga og svo framvegis.

Ég hef verið að hjálpa Söndru frænku minni að hekla, og var í dag að búa til uppskrift að rúmteppi fyrir dóttur hennar, sem ætlar að hekla. Ég ætla að deila þessari uppskrift með ykkur, sem er samblanda af texta, myndum, myndböndum og teikningum. Vonandi gagnast hún ykkur eitthvað. Ég get þó ekki eignað mér hugmyndina, en ég heklaði þetta eftir mynd sem ég fann á Pinterest, en henni fylgdi engin uppskrift. Það teppi er þó af öllum líkindum heklað með fínni heklunál og garni en ég nota, þannig að þetta er ekki alveg eins.

Hér er mynd af prufudúllunni, með kanti á tveimur hliðum, semsagt dúlla sem yrði í einu horninu á teppinu:

PALAMARGRET - WIN_20140518_180124

Þetta tiltekna teppi á að vera 60×120 cm á stærð, og passar á rimlarúm. Ein dúlla er 15×15 cm á stærð og kanturinn er 2-3 cm á breidd, svo að þetta teppi mun vera 4×6 dúllur, eða 24 dúllur samtals.

Endilega spyrjið mig ef þið vitið ekkert um hvað ég er að tala, ég reyni að útskýra eins vel og ég get 😉 Ég vek athygli á tenglunum sem ég set inn í færsluna, sem eru ýmist ljós- eða dökkgrænir eftir því hversu mikilvægir þeir eru.

Garn:

Í þetta teppi fer eftirfarandi garn: Guli liturinn er Trysil Superwash Ullgarn, sem fæst í Byko, en hinir litirnir eru Merino Blend DK sem fæst í Rúmfatalagernum. Seinna kom í ljós að guli liturinn er líka til í Rúmfatalagernum, svo ef hann er til er um að gera að kaupa allt á sama stað. En ef skortur er á garni í Rúmfó, þá er alveg eins hægt að kaupa hvítan og gulan í Byko. Hver dokka er um 50 gr og kostar um 300-400 kr. Ég set inn magnið af garni í einni dúllu, svo það er mögulegt að margfalda þá tölu eftir því sem teppið er stækkað eða minnkað.

  • Gulur (Trysil nr. 257, Merino DK nr. 55): Í eina dúllu fer rétt svo 1 gr af gulum, 1/2 dokka nóg í teppið.
  • Hvítur (Trysil nr. 200, Merino DK nr. 1): Í eina dúllu fara um 4 gr af hvítum, 2 dokkur í teppið.
  • Ljósblár (Merino DK nr. 18): Í eina dúllu þarf um 6 gr af ljósbláum, 3 dokkur í teppið.
  • Dökkblár (Merino DK nr. 926): Í eina dúllu þarf 3 gr af dökkbláum, um 1 og 1/2 dokka í teppið.
  • Ljósbrúnn (Merino DK nr. 41): Í eina dúllu þarf um 4 gr af ljósgráum (96 gr í teppið), en reikningsdæmið er öllu flóknara hér. Ljósbrúnn er líka notaður í kant, um 3 gr þegar kanturinn er á einni hlið (16 þannig í teppinu) og um 6 gr þegar um horndúllu er að ræða (4 þannig í teppinu). Svo að af ljósbrúnum þarf 160 gr, sem þýðir 4 dokkur. Teppið verður heklað saman jafnóðum (set þá aðferð inn neðar) sem þýðir að það er ekki þörf á auka garni til að sauma eða hekla saman 🙂

WP_000612

Heklunál:

Númer 4 (Svo fer náttúrulega eftir því hversu fast eða laust þið heklið, hvaða stærð hentar ykkur best).

Dúllan hekluð:

Ef þið eruð óvön að hekla, þá er helsta áskorunin að gera blómið sjálft, blái hluturinn er öllu auðveldari. Hér er teikning af mynstrinu, en ég teikna ekki umferðir nr. 4-6 til enda, þar sem þær eru gerðar alveg eins og umferð nr. 3.

WP_000545

1. umf: Byrjað er á því að gera galdralykkju með gulum (Nokkur fín myndbönd á youtube sem útskýra galdralykkju, reyndar engin með minni aðferð en það skiptir engu). Þegar galdralykkjan hefur verið gerð skal hekla 3 loftlykkjur (í raun fyrsti stuðullinn) og síðan 11 stuðla til viðbótar inn í galdralykkjuna. Tosað í endann á garninu til að loka gatinu og tengt í loftlykkjurnar í upphafi umferðar með keðjulykkju. Þegar búið er að tengja í hring skal slíta bandið frá og draga það í gegnum lykkjuna sem er á heklunálinni.

Galdralykkja, 3 ll, 11 stuðlar í galdralykkjuna, tengt í hring með keðjulykkju.

PALAMARGRET - WIN_20140518_172306

2. umf: Þetta er líklegast sú umferð sem erfiðast er að útskýra með rituðu máli. Nálinni er stungið á milli tveggja gulra stuðla (skiptir ekki máli hvar) og hvítt garn er dregið í gegn. Þessu næst eru gerðar 4 loftlykkjur. Blöðin á blóminu eru gerð með opnum tvöföldum stuðli, ég ætla að reyna að útskýra hvernig það er gert. Myndbandið sýnir hvernig venjulegur tvöfaldur stuðull er gerður, en þessi er aðeins frábrugðinn. Þegar 4 loftlykkjur hafa verið gerðar, er bandinu brugðið tvisvar um nálinu og stungið niður á sama stað og loftlykkjurnar voru gerðar. Þá skal ná í bandið og fara í gegnum tvær lykkjur, og síðan aftur náð í bandið og dregið í gegnum tvær. Þá eru tvær lykkjur eftir af nálinni, en í stað þess að draga band í gegnum þær tvær er aftur slegið tvisvar upp á nálinu og það sama endurtekið. Þá ættu að vera þrjár lykkjur á nálinni, en þá skal sækja bandið og draga það í gegnum allar lykkjurnar. Þá er ein loftlykkja gerð. Endurtekið út umferð, þ.e. þrír tvöfaldir opnir stuðlar og ein loftlykkja til skiptis samtals tólf sinnum, og síðan tengt í hring með keðjulykkju og slitið frá.

4 ll í stuðlagat, 2x tvöfaldur opinn stuðull, 1 ll *3x tvöfaldur opinn stuðull, 1 ll. Endurtekið frá * út umferð.

WP_000547

3-4. umf: Þá hefst hin hefðbundna ömmudúlla. Nálinni er stungið á milli blaðanna á blóminu, ljósblár er dreginn í gegn og 3 loftlykkjur gerðar (í raun fyrsti stuðullinn). Þessu næst eru tveir stuðlar heklaðar í sama gat, 3 loftlykkjur heklaðar, og 3 stuðlar í sama gat. Þetta er hornið á dúllunni. Þessu næst er 1 loftlykkja hekluð og síðan 3 stuðlar í næsta gat. Ferningur er heklaður utan um blómið, 3 stuðlar og 1 loftlykkja á hliðum ferningsins og 3 stuðlar, 3 loftlykkjur og 3 stuðlar í hornum ferningsins. Þegar þetta er gert er sniðugt að nota teikninguna af uppskriftinni, þar sést vel hvar á að hekla með bláa litnum. Í lokin er tengt í loftlykkjur í upphafi umferðar með keðjulykkja. Síðan er farið í næstu tvo stuðla með keðjulykkjum til að færa bandið í horn fyrstu bláu umferðarinnar, þar sem byrjað er á næstu umferð. Þá eru heklaðar 3 loftlykkjur og endurtekið eins og í fyrri umferð. Fyrri ljósbláa umferðin hefur 16 stuðlahópa (þ.e. 3 stuðlar í eitt gat), en seinni umferðin hefur 20 stuðlahópa.

PALAMARGRET - WIN_20140518_165846

5. umf: Heklað með dökkbláum, eins og fyrri umferðir, 24 stuðlahópar.

PALAMARGRET - WIN_20140518_171306

Dúllurnar heklaðar saman:

Þegar 24 dúllur hafa verið gerðar svona, þ.e. dökkblái hlutinn hefur verið kláraður, er tími til kominn að hekla teppið saman, sem verður gert í síðustu umferð dúllunnar með ljósbrúnum lit og notast verður við þessa aðferð, fyrir utan það að ekki verður notast við tvöfalda stuðla í hornunum eins og er gert í þessum útskýringum (vegna þess að þar eru hringir heklaðir saman) og í hornunum verða þrjár loftlykkjur en ekki tvær. Þegar teppið hefur verið heklað saman er kantur heklaður á með sama ljósbrúna lit (og því engin ástæða til að slíta bandið frá á milli).

Ef ykkur þykir betra að hekla eftir myndböndum þá er hér svipuð aðferð til að hekla saman sýnd með fjórum myndböndum. Ég vil bara vekja athygli á því að hún notar fastalykkjur til að tengja dúllurnar saman, en ekki keðjulykkjur eins og ég. Persónulega finnst mér fallegra að nota keðjulykkjurnar, þar sem fastalykkjurnar standa töluvert út. Einnig vil ég benda á að í þessu myndbandi koma hornin ekki jafn vel út og í aðferðinni sem ég notaði, svo ég mæli með því að þið skoðið hana einnig.

Kanturinn heklaður:

Kanturinn er heklaður í hring, en á myndunum er hann heklaður fram og til baka og því er fyrri umferðin á röngunni. Fyrst er heklað utan um allt teppið líkt og gert var utan um dúllurnar með dökkbláum, þ.e. þrír stuðlar settir í hvert gat með einni loftlykkju á milli, og tveir stuðlahópar settir í hornin með þremur loftlykkjum á milli.

PALAMARGRET - WIN_20140518_174733

Í seinni umferðinni er “blúnda hekluð”, þar sem í fyrsta gat á milli stuðlahópa set ég 7 stuðla, og í næsta stuðlagat er tengd keðjulykkja, en það myndar svona boga. Ég gerði teikningu til að útskýra mynstrið á hliðunum, en hef ekki gert teikningu til að útskýra hornin, geri það ef óskað er eftir því.

WP_000544

 

Hornið er síðan dálítið púsl, þar sem ég tengi keðjulykkjuna inn í miðjan stuðlahópin öðru megin við hornið, síðan set ég 7 stuðla í hornið, og tengi síðan keðjulykkju í miðjan stuðlahópinn hinum megin við hornið. Ég er búin að gera myndband þar sem þetta sést vel.

PALAMARGRET - WIN_20140518_175601 PALAMARGRET - WIN_20140518_180134

Uppskriftin sjálf er núna komin hér inn, endilega látið mig vita ef það þarf að útskýra eitthvað betur, en hérna fyrir neðan set ég inn nokkur góð ráð, þá sérstaklega fyrir þá sem eru algjörir byrjendur í hekli.

Annað gagnlegt:

Þegar verið er að skipta svona oft um lit, eins og gert er í þessum dúllum, er mikilvægt að réttan snúi alltaf fram, frekar en að litirnir séu sitt á hvað á réttunni eða á röngunni. Það er mjög auðvelt að sjá hvaða hlið er réttan og hvaða hlið er rangan þegar stuðlar eru heklaðir, en ég set hér inn myndir sem sýna það vel.

Svona er réttan:

PALAMARGRET - WIN_20140518_174256

Og svona er rangan:

PALAMARGRET - WIN_20140518_174242

Gangi ykkur sem allra best með þetta teppi og látið mig endilega vita ef þið hafið einhverjar spurningar 🙂

———————————Viðbót 26. desember 2014———————————————–

Teppið tilbúið

Eins og áður var sagt heklaði Sandra frænka mín þetta teppi, eftir uppskrift sem ég bjó til, og hér set ég inn myndir af teppinu tilbúnu. Það er þó greinilegt að ég gleymdi að gera ráð fyrir því hversu mikið fastar hún heklar en ég, og var því teppið töluvert minna en áætlað var. Það er því lán að það er annað barn á leiðinni, og verður þetta því ungbarnateppi, frekar en rúmteppi, eins og planið var 🙂

WP_20140912_19_02_30_Pro WP_20140912_19_02_41_Pro

Aðrar útfærslur á litum:

Halla Marinósdóttir sendi mér myndir af tveimur dúllum sem hún gerði eftir uppskriftinni minni, þar sem litirnir voru aðrir. Hér eru þær:

IMG_4292 IMG_4295

Ef þið heklið eftir þessari uppskrift þætti mér mjög skemmtilegt að sjá myndir af afrakstrinum, hvort sem litirnir eru aðrir eða ekki.

Endilega hafið samband ef það er eitthvað sem skilst illa, með von um að þessi uppskrift nýtist ykkur sem best 🙂

5 thoughts on “Ungbarnateppi með Baldursbrám

  1. Frábærar leiðbeiningar hjá þér!! Mjög falleg þessi blómadúlla og litasamsetningin er æði!
    Gaman væri að sjá mynd af teppinu í fullri stærð 🙂
    Takk fyrir þetta.

  2. Ég elska að hekla hef alltaf gert allt sem ég hef heklað upp úr mér. þess vegna er ég þakklát fyrir uppsskriftir.

  3. Takk fyrir fallega uppskrift, ég skellti í eitt bleikt teppi fyrir komandi dóttur og er alsæl með útkomuna. Notaði Kambgarn og heklunál nr 4
    Bkv Anna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *