Draumórar um háskólalífið..

Áður en ég byrjaði í háskóla var ég með ýmsa draumóra um það hvernig háskólalífið yrði. Þar sem ég hef gríðarlegan áhuga á uppeldis- og menntunarfræði var ég nokkuð viss um að nú myndi ég einungis læra um það sem ég hefði áhuga á, það sem mér þætti spennandi og skemmtilegt. Og öll þau verkefni sem ég myndi gera væru gagnleg, áhugaverð og krefjandi. Ég væri hér með komin yfir það að læra um það sem ég hefði engan áhuga á og að vinna verkefni sem manni finnst á stundum tilgagnslaus, eins og tíðkaðist á tímum í grunn- og framhaldsskóla. Engin fleiri leiðinleg verkefni, engir fleiri tilgangslausir tímar. Og til að setja punktinn yfir i-ið myndu samnemendurnir hafa gríðarlegan áhuga á þessu námsefni einnig, sem myndi skapa áhugaverðar umræður og skemmtilegar kennslustundir!

Og mikið sem ég hafði rangt fyrir mér… Ekki misskilja, ég hef mjög mjög MJÖG mikinn áhuga á því sem ég er að læra og oftar en ekki finnst mér gaman að lesa, mæta í tíma og gera verkefnin. En inná milli eru kennslustundir, kennarar, viðfangsefni eða jafnvel heilu námskeiðin sem eru óspennandi og ég skil einfaldlega ekki hvers vegna ég þarf að læra þetta. Eitt af því sem ég held að skipti mjög miklu máli í því samhengi er áhugi kennara á því að kenna, sem stundum virðist af skornum skammti. Ef kennarinn hefur lítinn áhuga á að kenna þér eitthvað, hvernig ættir þú þá að vilja læra það??

Ég kalla þetta draumóra því þetta eru einmitt draumórar, ekkert annað. Ég hélt að það yrði meira val, ég myndi einungis gera áhugaverð og skapandi verkefni. En svo er ekki raunin, þó vissulega sé margt af þessu mjög skemmtilegt. En ég skemmti mér nú samt í skólanum flestalla daga, það koma bara dagar inná milli sem eru ekki jafn skemmtilegir, en þannig er lífið bara 😉

Svo ég segi bara, þetta verður örugglega öðruvísi í Masters-náminu.. eða þá doktornum? 😉

One thought on “Draumórar um háskólalífið..

  1. Pingback: Draumórar um háskólalíf ? | Innihald.is | Þjóðmál – Afþreying

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *