Kennararnir vita betur..

Mig hefur lengi langað til að stofna vefsíðu, þar sem ég get deilt mínum hugmyndum um betra menntakerfi. En ég hef samt að einhverjum ástæðum verið hrædd við að segja mínar skoðanir, ég get það alveg þegar ég tala við fólk, en finnst eins og það yrði mun endanlegra á vefsíðu – sem það auðvitað er. En ég hef samt aldrei skilið þessa hræðslu almennilega.

Núna er ég komin með kenningu og er meira að segja nokkuð sannfærð. Ég held að skólakerfið hafi gert mig svona. Ekki misskilja mig, við ráðum því auðvitað sjálf hvað við látum hafa áhrif á okkur, en okkur er enga að síður kennt frá upphafi að hlusta og hlýða kennurum, foreldrum og öllum þeim sem eldri eru. Skólakerfið byggir á því að hlusta, meðtaka upplýsingar og muna þær. Aldrei í minni grunnskólagöngu var ég hvött til að segja mínar skoðanir – og mér finnst í raun að nemendur séu ekki hvattir til þess almennt. Að tala fyrir framan fólk, segja sínar skoðanir og skipta sér að því sem skiptir mann máli – því er haldið í lágmarki. Því kennararnir vita jú betur.

Þetta finnst mér vera einn stærsti galli skólakerfisins eins og það er í dag – þó ég vilji í raun breyta því öllu eins og það leggur sig. Það er ekki verið að mennta fólk til að takast á við raunveruleg vandamál – enda held ég að það séu mjög sterk tengsl á milli þess og það hvað börn og unglingar virðast hafa lítinn áhuga á stjórnmálum. Að hafa skoðanir er talið erfitt, einhver annar getur gert það – ekki ég, það reddar einhver annar málunum. En börn og unglingar hafa svo ótrúlega mikið að segja.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig ég get mögulega náð markmiði mínu, hvort ég þurfi ekki að læra kennarann og kenna síðan í 20 ár svo einhver hlusti á mig. En ætti reynsla mín af menntakerfinu, sem nemendi, ekki að duga til þess að ég megi segja mína skoðun? Er það ekki álit nemendanna sem ætti að gilda, í það minnsta jafnt og álit kennarana. Ég efast nefnilega stundum um að ég þurfi frekari menntun til að hafa áhrif, þarf ég að læra allt um það hvernig hlutirnir eru núna til þess að hafa skoðun? Er menntun enn trygging fyrir góðri vinnu – ég er ekki svo viss um það.

Ég tel að það þurfi að opna þessa umræðu, þó hún hafi vissulega verið til staðar í mörg ár. Allir ættu að geta sagt sína skoðun svo að hægt sé að komast að sameiginlegri niðurstöðu og koma af stað breytingum.

Ef þið hafið áhuga á breytingum, eða viljið segja ykkar reynslu, megiði endilega senda mér tölvupóst á palamargret (hjá) gmail.com – eða setja inn athugasemd 🙂

 

One thought on “Kennararnir vita betur..

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *